Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

skipulagslög.

144. mál
[18:56]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Ingibjörg Isaksen) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Indriða Inga Stefánssyni kærlega fyrir andsvarið.

Vissulega er þetta rétt. Þetta er áhyggjuefni og okkur bárust margar umsóknir frá sveitarfélögum varðandi skipulagsréttinn. Það má segja að hið hefðbundna skipulagsferli sveitarfélaga sé æskilegasta leiðin, það er alveg þannig.

Hér er verið að útfæra leið sem hægt er að grípa til, m.a. að frumkvæði sveitarfélaga, ef stefnir í ágreining sem þarf að leysa í ljósi þess að um er að ræða framkvæmdir sem ekki er spurning um hvort heldur hvernig eigi að ráðast í.

Þarna eiga fulltrúar sveitarfélaga sæti við borðið til að ná þessari niðurstöðu. Ég er sannfærð um það að þegar fólk nær að sitja saman og ræða saman út frá þeim forsendum sem hvert sveitarfélag leggur fram þá náist skynsamleg niðurstaða í málinu.

Það sem hefur skort í ferlinu hjá okkur hingað til, og er m.a. ástæða þessa frumvarps, er að stundum vantar niðurstöðu í máli. Farið er af stað í ferli varðandi framkvæmdir, umhverfismat, skipulagsferli og allt sem því tengist. Síðan fæst ekki framkvæmdaleyfi og þá er framkvæmdin stopp. Þá er enginn sem kveður á um það hvernig eða hvort eigi að fara í framkvæmdina.

Þennan punkt hefur skort og kallað hefur verið eftir honum. Nái nefndin ekki sameiginlegri niðurstöðu á þessum tíma er þessu vísað til ráðherra til að taka afstöðu. Honum ber, líkt og ég nefndi, að fara eftir þeim ákvæðum sem lögð eru til í nefndarálitinu og frumvarpinu sjálfu við ákvörðun sína.