Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

skipulagslög.

144. mál
[18:58]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ingibjörgu Ólöfu Isaksen fyrir svarið. Okkur greinir þarna á. Ég er ekki alveg sannfærður um að ef uppi er ágreiningur komist fólk að einhverri skynsamlegri niðurstöðu. Eðli ágreinings getur verið að hann verði töluverður og jafnvel óleysanlegur.

Það sést á umsögnum um þetta frumvarp að það er ágætur samhljómur um það að þörf er á einhverri leiðsögn og á einhverju úrræði til að leysa úr því vandamáli sem getur skapast ef búið er að fara í verkefni sem ákveðið hefur verið að fara í, eins og hv. þingmaður kom inn á.

Það bendir líka til þess að mögulega hafi skipulagsvald sveitarfélagsins ekki verið virt. Þarna nálgumst við hlutina á valdsækinn hátt. Engu að síður þarf að finna einhverja leiðsögn. Það er örugglega hægt að finna einhvern vettvang til að ræða hlutina ef uppi er ágreiningur.

Þá þarf að tryggja að sjálfstæði sveitarfélaga sé virt og að ekki sé gengið á skipulagsréttinn sem er tryggður í stjórnarskránni, eins og kemur fram í frumvarpinu. Sjálfstæði sveitarfélaga er þó nokkurt og okkur ber að standa vörð um það. Ég sé ekki að ekki sé hægt að fara örlítið mildari leiðir eða að þetta standist meðalhóf.