Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

skipulagslög.

144. mál
[19:01]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Ingibjörg Isaksen) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum að tala um skipulagsrétt sveitarfélaga. Vissulega er rétt að við verðum að virða þann rétt. Hins vegar er hér lagt til verkfæri komi til ágreinings varðandi það hvernig eigi að leggja línu — ekki hvort heldur hvernig. Þá er hægt að kalla til þessa nefnd þar sem sveitarfélög eiga sæti við borðið.

Hér er í raun lagt til leiðbeinandi viðbótarverkfæri, líkt og ég kom inn á áðan. Það er afar nauðsynlegt að fyrir hendi sé farvegur til að aðstoða við lausn ágreinings sem er uppi vegna þeirra þjóðhagslega mikilvægu hagsmuna að raforkukerfi sé tryggt um allt land. Með þessu frumvarpi er ruddur slíkur farvegur. Fulltrúar sveitarfélaga hafa fulla aðkomu að þessum farvegi. Samráðsferli er tryggt þar sem almenningur getur komið athugasemdum og ábendingum á framfæri líkt og í hefðbundnu skipulagsferli.

Eins og ég sagði áðan væri það æskilegasta leiðin að hið hefðbundna skipulagsferli sveitarfélaga myndi ná fram að ganga. Þetta er eingöngu eitt verkfæri í viðbót í okkar kistu til að grípa til náist ekki niðurstaða í slíku máli.

Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir hans andsvar. Ég gleymdi því hér í upphafi.