Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

skipulagslög.

144. mál
[19:06]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ingibjörgu Isaksen fyrir viðbrögð sín við spurningu minni.

Ég bjó um nokkurra ára skeið í Bretlandi. Þar hafa iðnaðarmenn í gegnum tíðina ekki vílað fyrir sér að hengja klóakrörin utan á íbúðarhús. Ég fékk einhvern tíma rafvirkja til mín til að laga ljós og ég sat uppi með ónýta stofu því að hnausþykkir kaplar voru settir á veggina með einhverjum straumbreyti. Tilfinning fyrir fegurð og útliti var allt önnur en við eigum að venjast hér.

Nú ítreka ég punkt sem ég tel afar mikilvægan, að viðhorf hafa breyst varðandi sjónmengun og þolinmæði okkar gagnvart slíku. Það eru líka í sjónmáli tæknilausnir sem kunna að gera stórkarlaleg möstur og turna til að flytja orku milli landshluta óþarfa. Við kunnum að standa á þröskuldi byltingar í orkumálum sem mun breyta þessu. Þá er eins gott að hafa ekki rasað um ráð fram.

Að sjálfsögðu tek ég undir þau sjónarmið að hér er um afar mikilvæga innviði að ræða. Við þurfum að geta boðið upp á traust rafmagn, miklu traustara en við höfum boðið upp á til þessa, á öllum landsvæðum, ekki síst hinum afskekktustu þannig að jafnræði ríki með þeim sem vilja stunda iðnað, landbúnaðarframleiðslu og annað sem krefst rafmagns og öryggis.

Ég vil að endingu spyrja hv. þingmann hvort hún telji svigrúm fyrir að innlima þá þætti sem hér voru nefndir í frumvarpið áður en það verður endanlega frágengið.