Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

skipulagslög.

144. mál
[19:08]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Ingibjörg Isaksen) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvar hans. Ég tek undir það að viðhorf eru að breytast. Við tökum alveg eftir því að enginn vill hafa einhverjar raflínur í lofti yfir húsnæði sínu. Það er leitast eftir því að þetta sé fjarri byggð og að í þéttbýli séu línur lagðar frekar í jörð en ekki. En sjónmengun er klárlega á einhverjum svæðum.

Ég tel að við getum prísað okkur sæl á Íslandi miðað við margar aðrar þjóðir. Ég fagna þessu þó að ég þekki ekki til þeirra tæknilausna sem hv. þingmaður vísar til. Tækninni fleygir vissulega fram. Ég er alveg sannfærð um það að fyrirtækin sem sinna flutningskerfi okkar, eins og Landsnet, eru með puttann á púlsinum og reyna hvað þau geta til að koma til móts við viðhorf og óskir sveitarfélaga hvað þetta varðar.

Varðandi frumvarpið sjálft þá á það ekki við um framkvæmdahlutann í lagningu raflína heldur einungis um skipulagið — um það að ef lína er lögð gegnum fleiri en eitt sveitarfélag er hægt að óska eftir því að raflínunefnd sé skipuð, með fulltrúum sveitarfélaga og öðrum fulltrúum sem ég taldi upp áðan, til að setjast niður og ákveða með hvaða hætti eða hvaða leið línan skuli fara gegnum sveitarfélög og ná sameiginlegri niðurstöðu ef til ágreinings hefur komið.

Varðandi framkvæmdina sjálfa er það Landsnet sem ákveður það. Auðvitað þarf það líka að fara gegnum umhverfismat framkvæmdarinnar og alla þá þætti. Það er ekki verið að gefa afslátt af einu né neinu með þessu frumvarpi heldur einungis verið að bæta við.