Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

skipulagslög.

144. mál
[19:32]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Andrés Ingi Jónsson) (P) (andsvar):

Frú forseti. Frekar en að reikna upp einhver ímynduð dæmi um það hversu flókið skipulagsferli gæti mögulega orðið langar mig bara að vísa til þess sem kom fram þegar Landsnet mætti fyrir nefndina. Þar bentu þau á að í upphafi hefði þessi lagasetning verið hugsuð til að bæta skilvirkni og leysa úr ágreiningsmálum. Að þeirra mati snerist frumvarpið, eins og það er að teknu tilliti til breytinga meiri hlutans, aðeins um að taka á seinni hlutanum.

Þetta snýst um að búa til farveg fyrir ágreiningsmálin. Engin tilraun er gerð til að bæta skilvirkni. Þetta segir sérfræðingurinn sem þetta frumvarp var samið fyrir. Við þurfum ekkert að hugsa okkur inn í nein dæmi. Ef Landsnet, sem þetta frumvarp er fyrir, segir að það sé engin skilvirkni unnin með því, hver er þá að kalla eftir því?