Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

skipulagslög.

144. mál
[19:40]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að þetta sanni þá kannski frekar hvernig hv. þingmaður hugsar um þessi mál. Er það að skipa átakshóp einstakur viðburður? Ég hélt að veðrið 2019 hefði verið ástæðan fyrir þessum átakshópi, þess vegna hafi hann verið stofnaður. Síðan gerist það bara örfáum árum síðar að það kemur annað veður sem brýtur þessar byggðalínur illilega. Ég hélt að við værum að fást við náttúruvána sem snýr að veðri og að búa til áfallaþolið kerfi, öflugt flutningskerfi raforku, hvort sem það er byggðalínuhringurinn eða svæðisbundnu kerfin og dreifikerfið síðan í sveitunum, og tengja á lægri spennu. Ég hélt að málið snerist um þetta. Við værum að hugsa um þetta heildarsamhengi í myndinni. Það er búið að gerast tvisvar það sem við höfum ekki séð gerast áður í 50 ára sögu byggðalínunnar, það hefur gerst tvisvar núna á síðustu tæpum fjórum árum.