Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

skipulagslög.

144. mál
[19:41]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Andrés Ingi Jónsson) (P) (andsvar):

Frú forseti. Hér stendur hnífurinn í kúnni. Hv. þingmaður hélt að við værum að hugsa um eitthvert heildarsamhengi í uppbyggingu raforkukerfisins en þetta frumvarp er einmitt ekki að því. Það er ekki heildarhugsun í þessu frumvarpi eins og er rakið í áliti 1. minni hluta heldur er þetta unnið á kontór úti í bæ án samhengis við t.d. breytingar sem urðu á umhverfismatslögum í millitíðinni og lagt fram aftur og aftur án þess að ráðuneytið taki tvö skref aftur á bak og hugsi: Heyrðu, kannski vorum við með of mikla rörsýn á það sem átti sér stað í desember 2019. Kannski þurfum við að skoða þetta heildstæðar, kannski þurfum við að gera þetta betur. Allar umsagnirnar sem eru neikvæðar í garð þessa máls eru jákvæðar í garð markmiðsins. Það ætti að segja hv. þingmanni eitthvað, að við séum öll sammála um markmiðið, en þessi aðferð sem ráðuneytið leggur hér fram, sameina verktaka úti í bæ, er arfavitlaus.