Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

skipulagslög.

144. mál
[19:42]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp um breytingu á skipulagslögum, uppbygging innviða. Inntakið í málinu kemur fram í greinargerð málsins:

„Ágreiningur hefur verið um lagningu flutnings- og dreifikerfa fyrir rafmagn yfir eignarlönd og gegnum einstök sveitarfélög síðustu ár sem hafa ásamt flóknu laga- og leyfisveitingaferli o.fl. tafið fyrir endurnýjun á flutnings- og dreifikerfi landsins. Athygli stjórnvalda á stöðu dreifikerfisins var fyrir alvöru vakin í desember 2019 þegar aftakaveður gekk yfir landið. Í veðrinu urðu miklar truflanir á flutnings- og dreifikerfi rafmagns sem hafði afleidd áhrif á fjarskiptakerfi og leiddi til sambandsleysis við umheiminn á stórum svæðum. Í kjölfarið skipaði þáverandi ríkisstjórn átakshóp með fulltrúum sex ráðuneyta sem ætlað var að meta hvaða aðgerðir væru færar til að efla innviði í flutnings- og dreifikerfi raforku og fjarskiptum auk þess að skoða dreifikerfi RÚV …“

Þetta var inntakið í vinnu átakshópsins. Í nefndaráliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar kemur fram:

„Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á skipulagslögum með það að markmiði að einfalda stjórnsýslu í tengslum við framkvæmdir í flutningskerfi raforku og byggist frumvarpið á tillögum starfshóps sem skipaður var í framhaldi af aftakaveðri sem gekk yfir land í desember 2019. Meðal annars er lagt til að heimilt verði að taka sameiginlega skipulagsákvörðun sem nái til einnar framkvæmdar vegna flutningskerfis raforku, þvert á sveitarfélagamörk.“

Í grunninn erum við að tala um einföldun stjórnsýslu, að skipa raflínunefnd, sem verður heimilt að skipa samkvæmt þessu, sem hefur það hlutverk að undirbúa og afgreiða skipulagsákvörðun vegna framkvæmdarinnar, gefa út sameiginlegt framkvæmdaleyfi og hafa yfirumsjón með eftirliti með framkvæmdinni.

Á seinni árum hefur vaxið skilningur á því að raforka, raforkuflutningar og dreifikerfið sé raunverulega grunnurinn að flestu í nútímasamfélagi. Við sem búum á Norðurlandi og Austurlandi, á þessu svæði þar sem varð mikið rafmagnsleysi og gerist sums staðar dögum saman eða oft í viku á einstökum stöðum, gerum þá kröfu að hér sé öflugt og áfallaþolið kerfi sem þolir íslenskt veðurfar. Eins og ég kom inn á áðan í andsvari þá hafa bara núna á allra síðustu árum komið tvö slæm tilvik þar sem gamli byggðalínuhringurinn hefur verið að brotna. Ástæðan fyrir því að þetta var ekki eins áberandi og 2019, það sem gerðist í september á síðastliðnu ári við gömlu Kröflulínu 1, byggðalínuhlutann, var að þá var nýbúið að taka í notkun Hólasandslínu 3 sem fer um sama svæði og hún gat þá annað þessu og tryggt raforkuöryggi á sama svæði. Ef hún hefði ekki verið komin í notkun hefði orðið rafmagnsleysi á stóru svæði norðan lands sem hefði getað haft mikil áhrif.

Flutningskerfi raforku er hluti af helstu grunninnviðum samfélagsins og ein af mikilvægustu forsendum fjölbreyttrar atvinnu- og byggðaþróunar og brýnt er að flýta frekari uppbyggingu þess, ekki síst til að bæta afhendingaröryggi í einstökum landshlutum og auka um leið samkeppnishæfni og ryðja þannig braut grænnar iðnaðaruppbyggingar og orkuskipta. Eins og við þekkjum hefur víða gengið gríðarlega erfiðlega að koma þessari uppfærslu á byggðalínuhringnum í gegn sem hefur orsakað það að atvinnulíf í Eyjafirði síðastliðin 15 ár eða þó nokkuð mörg ár hefur mátt þola það að lítið hefur verið hægt að gera og víðar um landið. Verstu svæðin hafa verið Norðurland, Vestfirðir og Suðurnes þar sem þessi mál hafa verið í ákveðnum lamasessi. Þetta er farið að skána núna á Norðurlandi og búið að tengja Akureyri við Fljótsdalsstöð á síðustu tveimur árum en áætlanir eru uppi um að klára að fara frá Rangárvöllum við Akureyri suður í Hvalfjörð, vonandi á næstu sjö, átta árum. Með þeirri uppbyggingu sem er fyrirhuguð greiðist raunverulega úr flöskuhálsi í flutningskerfinu sem mun bæta nýtingu virkjana landsins og minnka rennsli um yfirfall lóna með tilheyrandi orkutapi. Þannig verður hægt að nýta raforkukerfi þjóðarinnar sem byggir á endurnýjanlegum orkugjöfum enn betur en gert er í dag.

Það hefur verið töluvert talað um orkunýtni, að nýta raforkukerfið enn betur en við gerum í dag. Á hverju ári tapast raforka sem nemur rafmagnsnotkun 100.000 heimila þar sem flutningskerfi raforku er fullnýtt og ekkert svigrúm er til að bregðast við sveiflum. Með öflugra flutningskerfi raforku minnkar flutningstap, dregur úr sóun og bætt afhendingaröryggi er tryggt. Það kemur einnig í veg fyrir að fyrirtækið keyri á dísilvaraaflsstöðvum, sér í lagi þegar rafmagn fer af í vondum veðrum.

Í kjölfar óveðursins í desember árið 2019 var settur þessi átakshópur, sem við höfum verið að ræða hér í dag, hefur komið mikið fram í þessari umræðu, um úrbætur á innviðum sem fóru illa í óveðrinu. Þar hefur mesta umræðan verið um raforkukerfið og fjarskiptakerfin, helst verið tekist á um það í þeirri umræðu og gert mikið átak við að reyna að koma þessum hlutum í betra lag og töluverð áhersla lögð einmitt á fjarskiptakerfin; TETRA-kerfið, farsímana og það sem tengist því. Í skýrslu átakshópsins kom fram að styrking meginflutningskerfis og svæðisflutningskerfis raforku væri meðal þeirra ráðstafana sem til framtíðar væru mikilvægastar og raunhæfastar til að tryggja betur afhendingaröryggi raforku og koma í veg fyrir truflanir eins og urðu í óveðrinu. Helstu flöskuhálsar kerfisins væru tafir í leyfisveitingaferli fyrirhugaðra framkvæmda Landsnets sem og tafir vegna undirbúningsframkvæmda í svæðisbundna flutningskerfinu. Það er nauðsynlegt að gera Landsneti kleift með aukinni skilvirkni í regluverki leyfisveitinga að komast í þær framkvæmdir sem eru á tíu ára kerfisáætlun fyrirtækisins og flýta mikilvægum framkvæmdum sem eru á langtímaáætlun.

Í stjórnarsáttmálanum koma fram markmið í orkuskiptum og um kolefnishlutleysi. Öflugra flutningskerfi raforku er undirstaða orkuskiptanna svo hægt sé að miðla orku á milli landshluta til að nýta endurnýjanlega orkugjafa sem gegna grundvallarhlutverki í baráttunni gegn loftslagsvánni. Brýnt er að orkukerfið sé heilsteypt og áfallaþolið og tengi allt landið svo hægt sé að miðla á milli svæða og nýta þannig betur græna orku landsins í virkjunum sem fyrir eru. Enn fremur kemur það fram að horfa verði til lagabreytinga til að tryggja skilvirkari málsmeðferð innviðaframkvæmda sem snerta flutningskerfi raforku. Eins og við þekkjum úr umræðunni sem hefur verið í vetur þá hefur komið fram aflskortur, við höfum kynnst því á þessu ári, og hann komið fram mun meira en við höfum þekkt áður. Það var varað við því í skýrslu Landsnets 2017 og það hefur gengið eftir, aflskortur er orðinn mun algengari í kerfinu og mun halda áfram að versna ef ekkert er að gert. Það má búast við að tímabil aflskerðinga á mestu álagstímum verði viðvarandi næstu árin ef uppbyggingu raforkukerfisins verður ekki flýtt. Samkvæmt skýrslu á vegum Landsnets um töpuð tækifæri vegna takmarkana í flutningskerfinu kemur fram að samfélagslegur kostnaður vegna seinkunar þriggja verkefna þar sem sótt hefur verið um tengingu við flutningskerfið og Landsnet hefur þurft að hafna á undanförnum árum vegna takmarkaðrar flutningsgetu hefur numið milljörðum króna ár hvert. Fram kemur að ráðast þurfi í viðamiklar framkvæmdir með það að markmiði að styrkja flutningskerfið og auka afhendingargetu milli landshluta. Að mati Landsnets hefðu 25–30 verkefni sem tekin hafa verið saman raungerst ef flutningskerfi raforku hefði verið sterkara. Þau dæmi sem tekin eru í skýrslunni gefa til kynna að raforkusala hafi tapað tugum milljarða króna vegna þess að flutningskerfi raforku er ekki nógu sterkt hér á landi. Þá kemur einnig fram að sum þessara verkefna snúi að vetnisframleiðslu og það sé óheppilegt að takmörkuð geta flutningskerfisins standi í vegi fyrir getu Íslands til að ná loftslagsmarkmiðum og efnahagslegri uppbyggingu.

Þess má geta hér að framkvæmdakostnaður við að tengja Eyjafjörðinn, Rangárvelli suður í Hvalfjörð er talinn vera um 35 milljarðar þar sem er verið að leggja Blöndulínu 3, Holtavörðulínu 1, Holtavörðulínu 3 og svo er ég með líka kostnað vegna Suðurnesjalínu 2 til að klára þetta verkefni alla leið frá Fljótsdalsstöð suður á Reykjanestá og tengja í eina heild.

Að öllu framangreindu virtu er því ljóst að flýta þarf uppbyggingu flutningskerfis raforku, nánar tiltekið Blöndulínu 3, Holtavörðulínu 3, Holtavörðulínu 1 og Suðurnesjalínu 2 eins og ég gat um áðan, til að stuðla að bættu afhendingaröryggi og orkunýtni en einnig til að ná fram markmiðum í orkuskiptum. Þau munu auka álag á flutningskerfi raforku sem ýtir enn undir nauðsyn uppbyggingar á flutningskerfi raforku. Það verður að tryggja raforkuöryggi og afhendingaröryggi enda er raforkukerfið og tryggt raforkuframboð grundvallarþáttur í þjóðaröryggi og lífæð margra nauðsynlegra innviða. Það kom fram áðan varðandi fjarskiptakerfin að þau endast ekki lengi þó að meira hafi verið gert með varaafl á þeim kerfum og nú þegar við förum í 5G verður enn mikilvægara að tryggja þetta varaafl.

Ég held að það sé afar mikilvægt að farið verði í að hraða eins og hægt er þessari uppbyggingu sem víða hefur verið beðið eftir í 15–20 ár í það minnsta, þá er ég að tala um byggðalínuhringinn en líka svæðisbundnu kerfin sem má ekki gleyma að fóru gríðarlega illa í veðrinu 2019. Þar getum við talið upp: Sauðárkrókslína, Húsavíkurlína, Kópaskerslína, Laxárlína og fleiri línur. Þær eru hluti af því sem unnið er með í þessu frumvarpi og mikilvægt að hafa í huga.

Það hefur náðst gríðarlegur árangur með dreifikerfið eftir slæm veður 1991 og 1995 þegar ákveðið var að koma lágspennta kerfinu, 11 kílóvolta, þeim strengjum, í jörð í staðinn fyrir að vera með loftlínur. Mikið átak hefur verið gert í því líka frá 2019 þannig að væntanlega eru 75% af því kerfi komin í jörð.

Frú forseti. Það er lykilatriði í þessu máli, það sem verið er að reyna að leysa úr í þessu máli með einföldun á regluverki, að byggja hér upp öflugt og áfallaþolið flutningskerfi sem styrkir samkeppnishæfni landsins alls. Það er kannski ekkert skrýtið að það er ekki mikið hugsað um þetta hér á höfuðborgarsvæðinu. Fólk er ekki meðvitað um hvað við er að fást á landsbyggðinni. Það hefur ekki orðið alvöru rafmagnsleysi á höfuðborgarsvæðinu í rúm 30 ár. Hér er kerfið þannig að það eru fjórar öflugar línur sem liggja inn á höfuðborgarsvæðið sem tryggja mjög gott öryggi. En við sjáum núna líka í orkuskiptunum, nú þegar við ætlum að hætta að nýta olíu og slíka orkugjafa og ætlum að treysta á raforkuna fyrst og fremst innan örfárra ára, að það er algjört grundvallaratriði ef við ætlum að ná árangri í þeim málum að byggja upp þessi kerfi, hvort sem það er meginflutningskerfið eða kerfin út frá byggðalínuhringnum, svæðisbundnu kerfin. Ég er á þessu meirihlutaáliti og tel að þetta mál sé hluti af því að reyna að ná árangri á sviði sem hefur verið í ákveðinni stöðnun í mjög langan tíma. En ég held að meginmarkmiðið í heildina sé að ná þessu fyrir 2030, að við verðum búin að koma þessum málum í réttan og góðan farveg. — Ég hef lokið máli mínu, frú forseti.