Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

skipulagslög.

144. mál
[19:58]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég er, eins og áður hefur komið fram við þessa umræðu, ein af flutningsmönnum minnihlutaálitsins, frá fyrsta og eina minni hluta hv. umhverfis- og samgöngunefndar í þessu ágæta þingmáli. Ég hef þannig séð ekki miklu við þann texta að bæta eða við ræðu framsögumanns, hv. þm. Andrésar Inga Jónssonar. Mig langar samt að nota tækifærið og ítreka það sem fram kemur í áliti okkar, sem ég les þá bara beint upp, með leyfi forseta:

„Hvort sem umsagnaraðilar mæltu með framgangi málsins eða ekki þá var í umsögnum bent á að breytingarnar væru hvorki líklegar til að skila einfaldara regluverki né að hraða afgreiðslu mála frá því sem þegar væri. Skýrist það af því að í millitíðinni höfðu tekið gildi lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana, nr. 111/2021, þar sem málsmeðferð var einfölduð og aðkoma almennings og annarra hagsmunaaðila að ferlinu var tryggð.“

Í mínum huga er þetta grundvallaratriði þessa máls. Það er ekki í rauninni verið að taka inn í myndina þær breytingar sem þó hafa verið gerðar í lögunum frá 2021. Það er vísað í aftakaveðrið frá 2019 og ég er alveg sammála því sem hér hefur fram komið um þau aftakaveður sem gengið hafa yfir á síðustu árum, að sjálfsögðu hafa þau sett strik í reikninginn og sett kastljósið á nauðsynlegar úrbætur á flutningskerfi raforku. Það er mikilvægt að hér komi fram að ég held að enginn deili um þær nauðsynlegu úrbætur, enginn. Ég held að við séum alveg sammála um þau markmið sem við viljum ná með flutningskerfi raforku um allt land þannig að það sé hægt að treysta á raforkuöryggi fyrir almenning, fyrir venjuleg fyrirtæki allt í kringum landið. Ég bara gef mér að við séum öll sammála um það. En það sem er hins vegar eilítið knúsað, ef ég fæ að taka þannig til orða, er hvort þessar breytingar, verði þær að lögum, nái þeim markmiðum sem hér er verið að fullyrða að þær nái. Ég hef mínar efasemdir um það og ég ætla bara að hafa þær áfram. Hv. þingmenn meiri hlutans hafa ekki náð að sannfæra mig um annað. Því undirrita ég hér minnihlutaálitið ásamt hv. þingmönnum Andrési Inga Jónssyni og Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur.

En að öllu þessu sögðu um spurninguna um það hvort þessi hugsanlega lagasetning leysi allan okkar vanda þá langar mig að beina sjónum að hinum undirliggjandi vanda sem hér er að finna og hann varðar skipulagsvaldið í landinu og hvar það er staðsett. Það er nú gott að ég get glatt hv. þingmenn hér í hliðarsölum. Eins og við öll vitum sem höfum fjallað eitthvað um þessi mál þá færðist skipulagsvaldið endanlega til sveitarfélaganna fyrir u.þ.b. 25 árum eða aldarfjórðungi og hefur verið þar síðan. Ég hygg að langflest séu nú á því að skipulagsvaldið eigi að vera hjá sveitarfélögunum í landinu. Við getum svo haft alls konar skoðanir á því hversu burðug sveitarfélög þurfi að vera til þess að geta beitt því skipulagsvaldi af fagmennsku og framsýni. Um það eru örugglega deildar meiningar. Svo eru ákveðin viðfangsefni, sem liggja einmitt á borði stjórnmálafólks, sem varða heildarsýn og almannahagsmuni og mikilvæga grunninnviði í landinu öllu. Flutningskerfi raforku er að mínu viti hluti af þessum mikilvægu grunninnviðum. Það má kannski færa rök fyrir því að einhverjar fleiri slíkar framkvæmdir eða slíkir innviðir séu sambærilegir, við skulum orða það þannig. Ég veit til þess að í löndum þar sem starfræktir eru herir þá eru t.d. innviðir er tengjast hernaði hluti af slíkum grunninnviðum. Það er ekki þannig séð um það að tefla hér þó að vissulega gildi ákveðnar reglur um svæðið á Miðnesheiði. En það sem ég er að reyna að koma orðum að hér er að við erum með þessu kannski að fjarlægjast að ræða kjarna málsins, sem er sá hvort í landinu eigi að vera í gildi landsskipulag, landsskipulagsáætlun, sem vissulega er til, sem trompi aðrar skipulagsáætlanir.

Ég geri mér fulla grein fyrir því að mörgum þykir það nokkuð róttækt kannski eða of mikið vald fært og þá hvert og hvernig og hvar sveitarfélögin koma inn í það. Vissulega er það þannig að sveitarfélögum ber að aðlaga sitt aðalskipulag að landsskipulagsáætluninni. En ég held hins vegar að í því fyrirkomulagi sem við höfum komið okkur upp þá náum við svo illa utan um þetta viðfangsefni. Við náum svo illa utan um það mikilvæga og brýna viðfangsefni að fjalla um það hvernig við tryggjum þessa grunninnviði um allt land. Flutningskerfi raforku, já, vissulega. Við gætum talað um þjóðveg 1, gætum talað um eitthvað annað sem væri sambærilegt. Ég veit að þessi umræða verður ekki tekin á dýptina hér á þessum þingfundi en ég held hins vegar að það sé alveg þess virði að við leyfum okkur að hugsa þetta lengra og við leyfum okkur að kafa dýpra í það hvernig það hefur verið gert í öðrum löndum. Svo ég vitni nú til góðrar ferðar sem hv. umhverfis- og samgöngunefnd fór til Skotlands í upphafi þessa árs, þar sem við vorum m.a. að ræða við bæði þingmenn og sveitarstjórnarfólk í Edinborg og í Glasgow, þá var spurt um samskipti sveitarfélaga og landsstjórnarinnar og þá kom fram að það væri ósköp einfaldlega þannig að ef landsstjórnin hefði gert eitthvað að forgangsmáli þá fylgdu sveitarfélögin á eftir. Mér þætti gaman að sjá það gerast með sama hætti á Íslandi. En það er vissulega umhugsunarvert. Kannski er það vegna þess að þessi samfélög eru bara komin lengra í samtali sínu um skipulagsmál, um markmiðssetninguna, um mikilvægi góðs skipulags, um mikilvægi samspils skipulags og baráttunnar gegn hamfarahlýnun og samspili við umhverfisvernd í sínum breiðasta skilningi. En ég held að við eigum enn eftir svolitla leið í það að komast á þennan stað í umræðunni hér. En orð eru til alls fyrst og mig langaði hreinlega bara til að nota þetta tækifæri hér í kvöld til að vekja athygli á þessu samspili og hvernig við þurfum að ræða um skipulagsvaldið og þróun þess til framtíðar í samhengi við skilgreininguna á grunninnviðum og hvað það er í þeim sem fer þvert á sveitarfélögin og þar sem almannahagsmunir vega þyngra heldur en tilteknir hagsmunir innan sveitarfélaga.

Svo bara allra síðast, frú forseti, myndi ég vilja nefna það sem hefur kannski ekki komið mikið fram í umræðunni hér í kvöld. Þegar við erum að ræða um flutningskerfi raforku þá erum við að ræða um eitt fyrirtæki, Landsnet. Við erum að ræða um samskipti þessa fyrirtækis við sveitarfélögin í landinu aðallega. Það varðar alveg sérstaklega samskiptin vegna Suðurnesjalínu 2 við nokkur sveitarfélög og þar hefur Sveitarfélagið Vogar á Vatnsleysuströnd átt kannski í erfiðustu samskiptunum við Landsnet. Við þurfum líka að horfast í augu við það að það er mjög ankannaleg staða fyrir sveitarfélög sem eru sjálfstæð og hafa rétt sinn samkvæmt stjórnarskrá landsins að finna sig í svona valdatafli við opinbert fyrirtæki sem heldur sínu fram og vill fá sínu framgengt burt séð frá skipulagsvaldi sveitarfélagsins. Þetta er annar vinkill á þessu máli sem ég hef verið svolítið hugsi yfir að undanförnu.

Þá spyr ég mig aftur: Mun þessi lagasetning, verði þetta frumvarp að lögum, leysa allan þennan vanda? Mun Landsnet sem fyrirtæki taka sig á í samskiptum við sveitarstjórnir? Ég ætla að halda því fram að fyrirtækið þurfi að gera það. Ég ætla að halda því fram að reynslan sýni okkur að þar þurfi að verða viðhorfsbreyting í samskiptum við sveitarstjórnir. Og kannski, eins og hér var nefnt áðan, mun þetta frumvarp flýta uppbyggingu flutningskerfisins. Ég er ekki sannfærð. Það kann að vera að það gerist. Það kann að vera að meiri hlutinn hafi rétt fyrir sér og þetta muni allt falla í ljúfa löð og að við munum loksins fá flutningskerfi sem dugar í öllum landshlutum hér á landi. En það þarf, ef marka má umsagnir og ef marka má umfjöllun um þetta frumvarp í hv. umhverfis- og samgöngunefnd, fleira til. Ég held að það þurfi m.a. betra samtal á milli fyrirtækisins sem ber ábyrgð á lagningu raflínanna við sveitarfélögin og það þurfi líka að taka þetta samtal á grunni þeirra lagasetninga sem við nú þegar höfum í höndunum sem eru lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana frá 2021, breytingunum sem þá voru gerðar. Ég ætla ekki að útiloka að hér hafi meiri hlutinn í nefndinni fundið snilldarlausn sem leysir öll okkar vandamál. En mig grunar að fleira þurfi til.