Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

skipulagslög.

144. mál
[20:10]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka kærlega hv. þingmanni fyrir að koma inn á einmitt þjóðaröryggi, landsskipulag og slíka þætti. Ég var eiginlega tilbúinn með þann hluta í ræðu minni áðan en sleppti því að þessu sinni, fannst ekki alveg stemning í salnum núna fyrir þá umræðu. En þetta er náttúrlega komið á allt annað plan núna þegar við erum einmitt að ræða þessa hluti og við höfum tekið þá fyrir öðru hvoru í umhverfis- og samgöngunefnd. Þetta er gríðarlega mikilvægt og ég held að að mörgu leyti höfum við ekki staðist alveg kröfur — við þekkjum þetta með flutningskerfi raforku, þetta hefur gengið gríðarlega erfiðlega víða í tvo áratugi jafnvel og þetta eru grundvallarinnviðir sem eru í nútímasamfélagi grunnurinn að öllu. Svo erum við að fara í orkuskipti og ætlum að treysta bara á raforkuna. Við þurfum mjög áfallaþolið og öflugt kerfi sem þarf að vera miklu sterkara en við þekkjum í dag, bara vegna þess að við ætlum ekki að vera með olíu á bílunum okkar eða bensín eða dísil. Við ætlum bara innan tíu ára eða svo að vera komin með miklu sterkari hætti inn í þessi mál og þá þurfum við miklu sterkari kerfi en við þekkjum kannski akkúrat núna að mörgu leyti. Ég hef oft rætt og var með kafla hérna um landsskipulag og þjóðaröryggi. Þá hef ég oft tekið umræðuna með Svíþjóð og „riksintresse“, hvernig menn standa að málum þar varðandi virkjanir, flutningskerfi, brýr, járnbrautarteina, vegi, fjarskiptakerfi, ljósleiðara, sæstrengi. Við heyrum aldeilis umræðuna þessa daga um þá. Ég hef leitað mér upplýsinga og mér skilst að það séu kannski þrjú, fjögur lönd í Evrópu sem eru ekki með einhverja löggjöf um akkúrat þessa hluti, þessi löggjöf hefur byggst upp á frá 1960, 1970 og hefur verið meira og minna víðast hvar í 50, 60 ár. Ég held að það sé gríðarlega áhugavert að ræða það sem snýr að þessum málum á dýptina.