Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

skipulagslög.

144. mál
[20:22]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég get tekið undir þetta sjónarmið hjá hv. þingmanni. Ég held að það sé alveg tilefni til að skoða þetta ferli og við áttum okkur á því hvort við getum gert það þannig úr garði að það hafi sterkari og breiðari lýðræðislega tengingu. Nú er það ekki svo að það sé engin svoleiðis tenging í fyrirkomulaginu eins og það er í dag, alls ekki. En þetta er að einhverju leyti svona kerfi í kerfinu, það er rétt, og oftar en ekki erum við að hengja ákvarðanir við áætlun og málsmeðferð hennar er með þeim hætti sem ég lýsti hér á undan. Það má kannski hugsa sér að þetta sé í einhverjum sambærilegum fasa og aðrar áætlanir, svo sem samgönguáætlun eða rammaáætlun eða eitthvað slíkt. Í rauninni hefur hv. þingmaður svarað spurningu minni þannig að ég þarf svo sem ekkert að dvelja frekar við það. Ég þakka henni bara kærlega fyrir.