Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

skipulagslög.

144. mál
[20:33]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ingibjörgu Ólöfu Isaksen fyrir andsvarið. Það sem þarf að tryggja er að það sé jafnræði milli aðila, jafnræði gagnvart sveitarfélögum sem eiga aðild að slíkri línulagningu. Það sé ekki bara þannig að það séu, segjum, tvö sveitarfélög og svo eru þrír fulltrúar frá ráðuneyti og einn frá Skipulagsstofnun. Þá sé ég ekki hvernig við tryggjum að jafnræðis sé gætt. Því miður kemst ég óhjákvæmilega að þeirri niðurstöðu að þarna gætu stjórnvöld, þarna gæti framkvæmdarvaldið þvingað fram niðurstöðu sem sveitarfélög hafa mögulega ekkert um að segja. Sveitarfélögin gætu ekki haft áhrif á niðurstöðuna. Samráðsvettvangur er rosalega mikilvægur en til að samráð standi raunverulega undir nafni þarf að fylgja því möguleiki til að hafa áhrif á það sem gert er. Annað er ekki samráð. Ef það er hægt að þvinga fram að hér skuli línan liggja — það er betra ef sveitarfélögin eru sátt við það en eins og hv. þingmaður bendir á þá erum við hér náttúrlega að tala um tilvilk þar sem er kominn ágreiningur og þá er miklu betra að þetta sé vandað og tryggt að það sé jafnræði. Þannig stenst þetta líka viðmið stjórnarskrárinnar.