Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

skipulagslög.

144. mál
[20:39]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla kannski ekki að fara dýpra í þetta hér en það væri allt í lagi ef hv. þingmaður myndi útskýra fyrir mér hvernig hann sér þetta fyrir sér, hvernig eigi að leysa málið. Þarna erum við kannski að fást við mál sem búið er að fást við mjög lengi, eins og kom fram í ræðu hjá mér áðan, jafnvel um áratugaskeið fyrir ákveðin svæði. Eins og við höfum rætt hér í dag í þessum sal þá eru þetta algjörir grundvallarhagsmunir fyrir allt nútímasamfélag sem snúa að þessu. Hvernig tryggjum við almenna hagsmuni, ef ég spyr teorískt þeirrar spurningar, er flokkur Pírata eða hv. þingmaður með einhverja nálgun á það? Þetta hefur gengið víða mjög erfiðlega. Síðan er það áfallaþolið og annað, sem er bara önnur breyta í þessu máli sem snertir kannski ekki alveg þetta mál hér. Við búum að því í þessu landi að við framleiðum mikla raforku með jarðvarma og vatnsafli. Við erum að fara í þessa vegferð með orkuskiptin og ætli það sé ekki þannig að sirka 85% af þeirri orku í landinu sem við nýtum í dag, er græn, við erum komin langt fram úr flestum þjóðum. Þá er það flutningskerfið sem er í algjöru lykilhlutverki, að það sé áfallaþolið. Byggðalínuhringurinn í dag er í rauninni 133 kílóvolta lína sem þolir ákveðið álag og síðan er verið að reyna að fara í nýjar línur sem geta verið sterkari, þéttari, þola meiri áföll eins og við ræddum hérna áðan með veðrið. Það hlýtur að vera kostur fyrir byggð í landinu að við getum boðið upp á þetta og algjör forsenda fyrir orkuskiptunum er þetta áfallaþolna kerfi sem er bara stór hluti af því hvernig við ætlum að tryggja þessa innviði, þessa grundvallarinnviði sem eru raforkukerfið, og hvernig við ætlum að fara í orkuskiptin.