Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

skipulagslög.

144. mál
[20:43]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Landsnet sér um uppbyggingu á flutningskerfi raforku og svæðisbundna kerfinu þannig að við erum svolítið í þessu mengi að við erum að vinna með tíu ára kerfisáætlun Landsnets. Það er í rauninni hryggjarstykkið sem ráðherrann þarf að fara eftir og taka tillit til þegar hann er að vinna með þetta, eins og þessa raflínunefnd í þessu frumvarpi, og síðan til umhverfismatslaganna frá 2021, sem koma að umhverfismati tengt þessum málum. Ég er með dæmi um það sem við erum að fást við í orkuskiptunum núna, eitt gott dæmi. Í mjög langan tíma hefur verið mjög slæmt ástand á raforkumálum á norðausturhorni landsins, tengist Þórshöfn, Langanesbyggð og því svæði. Það er raunverulega ekkert flutningskerfi á milli Kópaskers og yfir á Vopnafjörð, það hefur verið mjög takmarkað. Það er einn strengur hjá Rarik frá Kópaskeri yfir á Þórshöfn og það hefur bara verið vandamál. Þar með er samkeppnishæfni hreinlega ekki til staðar á Þórshöfn varðandi það sem við erum að gera í orkuskiptum; keyra loðnuverksmiðjuna þar og frystingu og annað á raforku. Það er verið að brenna olíu í töluverðum mæli. Nú er það nýja í því máli, bara út frá almennaheill og öryggi og orkuskiptum sérstaklega, að Landsnet er farið að huga að því núna, eins og við erum að sjá í fréttum og kom fram á ráðstefnu tengt því máli sem ég var á fyrir ekki löngu síðan, að fara einmitt í þetta, að Landsnet taki við að leggja öflugt kerfi yfir á Þórshöfn. Þá er markmiðið fyrst og fremst orkuskiptin og að tryggja almannaöryggi og samkeppnishæfni svæðisins til lengri framtíðar. Í grunninn erum við alltaf að hugsa um íbúana, að tryggja samkeppnishæfni svæða, að fólk geti átt gott líf og byggt upp atvinnugreinar og annað og það er að verða miklu meiri þörf á að það tengist orkuskiptum og grænni orku. Við erum farin að nýta það í meira mæli, hvert og eitt okkar, en þekkt hefur verið hingað til.