Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

náttúruvernd.

912. mál
[20:48]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S):

frú forseti. Ég mæli fyrir hönd meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd.

Frumvarpið felur í sér breytingu á 3. málslið 3. mgr. 17. gr. náttúruverndarlaga þess efnis að óheimilt sé að skilja eftir úrgang í náttúrunni og að úrgangur skuli meðhöndlaður í samræmi við ákvæði laga um meðhöndlun úrgangs.

Nefndin fjallaði um málið, fékk á sinn fund gesti og barst ein umsögn. Greint er frá því í nefndaráliti sem liggur frammi.

Í kjölfar umfjöllunar nefndarinnar um málið vill nefndin meirihluti umhverfis- og samgöngunefndar árétta eftirfarandi sérstaklega:

Nefndin fjallaði um ábendingu Umhverfisstofnunar þess efnis að í 4. mgr. 9. gr. laga um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003, er kveðið á um að óheimilt sé að losa úrgang annars staðar en á móttökustöð eða í sorpílát, þ.m.t. grenndargáma. Ákvæðið nái einnig til losunar úrgangs í náttúrunni og breyti frumvarpið því ekki lagalegri stöðu þeirra sem skilja eftir úrgang í náttúrunni. Meiri hlutinn tekur undir það en telur ákvæði frumvarpsins þrátt fyrir það til mikilla bóta þar sem það er til þess fallið að auka skilning almennings á þeim skyldum sem fylgja því að fara um land á grundvelli almannaréttar, þ.m.t. að skilja engan úrgang eftir í náttúrunni. Að lokum leggur meiri hlutinn áherslu á nauðsyn þess að tryggt verði að upplýsingar um hvar hægt sé að losa sig við úrgang séu aðgengilegar ferðamönnum og öðrum sem um landið ferðast en öðruvísi verður markmiði frumvarpsins ekki náð.

Að framansögðu virtu leggur meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Undir álit meiri hlutans rita auk þess sem hér stendur hv. þingmenn Halla Signý Kristjánsdóttir, Ingibjörg Isaksen, Vilhjálmur Árnason, Orri Páll Jóhannsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir. Bjarni Jónsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.