Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

breyting á ýmsum lögum um skatta og gjöld.

432. mál
[21:08]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Ágúst Bjarni Garðarsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir andsvarið og ég tek undir margt af því sem fram kom hjá honum. Ég tel hins vegar að þetta frumvarp sé til bóta. Markmið þessa ákvæðis sem þingmaðurinn nefnir hér varðandi kauprétti í sprotafyrirtækjum er einmitt að styðja við þessi fyrirtæki þegar þau eru að koma undir sig fótunum, ef svo má segja, styðja við samkeppnishæfni nýsköpunarfyrirtækja hvað starfsfólk varðar, sérstaklega á þessu, hvað á maður að segja, frumstigi þegar fyrirtækin eru einmitt með lítið fjármagn, og auka svigrúm fyrir þessi fyrirtæki til að bæta kjör starfsfólks án þess að, eins og fram kom í máli mínu, auka rekstrarkostnað fyrirtækisins í þessum fyrstu skrefum. Jafnframt er verið að tryggja að til framtíðar verði þetta sameiginlegt verkefni, að báðir aðilar hafa þarna hag af að vel gangi. Um þetta er auðvitað gerður samningur og allt uppi á borðum. En varðandi þennan samanburð sem þingmaðurinn nefnir og hvað er að gerast í nágrannalöndunum í kringum okkur þá er það sérstaklega tekið fyrir í nefndarálitinu og ég fæ að vitna orðrétt í meirihlutaálitið:

„Meiri hlutinn vill þó árétta að full ástæða er til þess að skilyrði fyrir beitingu reglna sem hafa það að markmiði að stuðla að auknu samkeppnishæfi sprotafyrirtækja hér á landi sæti reglulegri endurskoðun með tilliti til þróunar í nágrannalöndum og í þeim löndum sem innlend nýsköpunarfyrirtæki eru í samkeppni við um starfsfólk.“

Þannig að ég held (Forseti hringir.) að þetta sé eitthvað sem við höfum tekið til skoðunar og verði áfram til skoðunar til framtíðar.