Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 105. fundur,  10. maí 2023.

Traust og trúverðugleiki íslenska ríkisins á fjármálamörkuðum.

[15:49]
Horfa

Ágúst Bjarni Garðarsson (F):

Virðulegur forseti. Við erum hér enn á ný að ræða um ÍL-sjóð, mál úr fortíðinni sem þarf að leiða ofan í jörð. Líkt og ég kom inn á í umræðum hér fyrr í vetur er mikilvægt að gera sér grein fyrir tilurð ÍL-sjóðs svo að það sé hægt. Það þarf að horfa allt aftur til ársins 2004 og ákvarðana sem teknar voru á þeim tíma í þessum sal hér þar sem ákveðið var að lántakendur gætu greitt sín lán. Að sjálfsögðu nýtti almenningur í landinu sér betri lána- og vaxtakjör hjá bönkunum sem aftur veikti stöðu Íbúðalánasjóðs. Oft væri gott að geta horft inn í kristalskúlu og séð fyrir sér þróun vaxta til framtíðar en það er því miður ekki hægt. Það er ekki alltaf svo að hægt sé að sjá fyrir afleiðingar af þeim ákvörðunum sem teknar eru í þessum sal þrátt fyrir mikinn vilja og góðan metnað. Það er erfitt verkefni sem hæstv. fjármálaráðherra þarf hér að glíma við en að mínu mati er verið að reyna að gera það eins vel og hægt er. Það væri vænlegast, bæði fyrir ríkið sem og lífeyrissjóðina, að samningar næðust um þetta flókna verkefni. Í því samhengi langar mig að spyrja hæstv. ráðherra út í samningaviðræður fjármálaráðuneytis og kröfuhafa ÍL-sjóðs og hvort hæstv. ráðherra hafi skynjað einhvern samningsvilja hjá aðilum? Hafa í því samhengi verið ræddar mögulegar leiðir sem komi til með að takmarka áhrif á fjárhag sjóðanna og leiðir til þess að ávaxta eignir og íbúðabréf? Með öðrum orðum: Þarf tap sjóðanna að verða jafn mikið og gefið er í skyn ef aðilar setjast að borðum og leita leiða sem eru hagfelldar fyrir báða aðila?