Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 105. fundur,  10. maí 2023.

Traust og trúverðugleiki íslenska ríkisins á fjármálamörkuðum.

[15:53]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Þetta er mikið og áhugavert mál. Hérna er fjármálaráðherra og segir ýmsa hluti hátt og með mikilli innlifun, varar fólk við stórkarlalegum yfirlýsingum um 150 milljarða kr. sparnað. Nei, það var annars hann sem var með yfirlýsingar um 150 milljarða kr. sparnað. Hann sneri þessu við. Hvað skyldi vera í gangi hérna? Hérna er borið upp að það þurfi að passa upp á það að hérna séu hagsmunaaðilar og kröfuhafar og þeirra lögfræðiálit séu nú ekkert marktæk, alls ekki neitt marktæk. Lífeyrisþegarnir hérna í landinu, þeir eru þarna undir. En hverjum treystir markaðurinn? Er það þeim sem skulda lítið, skulda mikið eða þeim sem borga? Er það ekki þeim sem borga skuldirnar sínar sem markaðirnir treysta þegar allt kemur til alls?

Þetta mál er mjög merkilegt þegar allt kemur til alls. Þegar sagan er skoðuð, líkt og þingmaður Framsóknarflokksins ýjaði að, þá sést að hérna erum við að glíma við ákveðna pólitíska ákvörðun. Það var varað við einmitt þessu vandamáli sem við erum að glíma við núna, þessari áhættu sem fylgdi því að það er ekki hægt að greiða upp lánin, greiða upp hlutina. Það virðist vera pólitísk ákvörðun um að halda þessum bréfum óuppgreiðanlegum. Hver ber nákvæmlega ábyrgð á þeirri ákvörðun er ekki hægt að benda beint á, að öðru leyti heldur en ríkisstjórnina á þessum tíma. Ef þessi bréf hefðu verið uppgreiðanleg af hálfu ríkisins, af hálfu Íbúðalánasjóðs, þá værum við ekki í þessum vanda. Þetta er nákvæmlega vandinn sem var bent á og þess vegna erum við í þessum mínus sem er verið að ræða. Það er mjög áhugavert að lesa t.d. rannsóknarskýrslu Alþingis um Íbúðalánasjóð hvað þetta varðar. Það eru ýmis flókin mál þar á bak við (Forseti hringir.) en eftir sem áður þá stöndum við í þessum gríðarlega mínus vegna þessarar pólitísku ákvörðunar sem er áhugavert að velta betur fyrir sér af hverju var tekin.