Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 105. fundur,  10. maí 2023.

Traust og trúverðugleiki íslenska ríkisins á fjármálamörkuðum.

[16:06]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Virðulegi forseti. Nú virðist fjármálaráðherra telja sig hafa fundið leið til að gera upp skuldir sjóðsins miðað við núverandi stöðu þeirra og komast hjá því að greiða kröfuhöfum Íbúðalánasjóðs bætur fyrir framtíðarvaxtatap, sem í daglegu kalla í daglegu tali kallast uppgreiðslugjöld. Án þess að fara nánar út í orðræðu um að samningar skuli standa langar mig að beina því að ráðherranum hvort sama muni ekki gilda um neytendur, þau sem skulda Íbúðalánasjóði húsnæðislán með þessum íþyngjandi skilyrðum. Skilyrðin um uppgreiðslugjald eru verulega íþyngjandi fyrir neytendur og algerlega úr takti við nútímabankaviðskipti. Í raun má alveg halda því fram að þau verði að teljast óréttmætir skilmálar í samningi þar sem þau eru algerlega án nokkurra takmarkana. Þannig eru dæmi um að Íbúðalánasjóður hafi krafist hartnær 20% af eftirstöðvum lánsins í uppgreiðslugjald. Það má færa sterk rök fyrir því að það séu órjúfanleg tengsl á milli uppgreiðslugjalda í samningum og stofnunarinnar Íbúðalánasjóðs og að þegar sú stofnun er ekki lengur til og lánin seld öðrum falli þessi ákvæði sjálfkrafa niður, enda er Íbúðalánasjóður eina lánastofnunin sem hefur ótakmörkuð uppgreiðslugjöld í sínum samningum með þeim hætti sem hér um ræðir. Hér væri ekki um samningsbrot að ræða. Þessi uppgreiðslugjöld eru algerlega úr takti við nútímabankaviðskipti og verulega íþyngjandi og jafnvel skaðleg neytendum, ekki síst á tímum þar sem bæði fjármálaráðherra og seðlabankastjóri benda fólki ítrekað á að það geti skuldbreytt lánum sínum ef á þarf að halda til að minnka annaðhvort greiðslubyrði eða áhrif verðbólgunnar. Þarna er hópur fólks sem hefur ekki átt möguleika á því. Verði lánasöfnin seld, eins og ég tel líklegt, þarf því að gæta að þessu í samningum við kröfuhafa. Ég vil því beina því til ráðherra að beita sér fyrir því að verði lánasöfnin seld verði þessir skilmálar um uppgreiðslugjöld felldir brott í samræmi við það sem fjármálaráðherra telur að eigi að gilda fyrir ríkissjóð. Það lítur mjög einkennilega út ef ríkið getur komið sér undan uppgreiðslugjaldi gagnvart sínum kröfuhöfum án þess að tryggja að það sama gildi um neytendur gagnvart þeirra kröfuhöfum. Þá fyrst væri sjálfsköpuðum uppgreiðsluvanda vanda sjóðsins velt yfir á saklausa neytendur af fullum þunga.