Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 105. fundur,  10. maí 2023.

Traust og trúverðugleiki íslenska ríkisins á fjármálamörkuðum.

[16:13]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég nánast biðst afsökunar á því að hafa valdið því að hæstv. fjármálaráðherra snöggærðist hér í ræðustól. En mér finnst þetta sýna okkur að aftur og aftur sjáum við hvað hæstv. fjármálaráðherra fer glannalega með fjármuni, sjaldan þó jafn gróflega og hér í dag. Hér talar hann eins og skjal um lagasetningu sé ekki til, eins og að lögfræðiálit og ákall lífeyrissjóðanna sé tilbúningur. Það sé rangt að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spyrji spurninga um næstu skref stjórnvalda. Sumir stjórnarliðar tala hér um mikilvægi þess að eyða óvissu. Það má kalla það að standa ekki við gerða samninga að eyða óvissu. Það má kalla það að láta almenning taka reikninginn að eyða óvissu. Það eyðir vissulega óvissu. Það eyðir hins vegar líka trausti og það eyðir trúverðugleika og það mun kosta framtíðarskattgreiðendur á Íslandi. Það mun kosta þegar það liggur fyrir að skuldbindingar við íslensk stjórnvöld eru ekki pappírsins virði, eru afnumdar með lögum. Hver vill eiga viðskipti við þannig stjórnvöld? Það mun kosta, hvort sem við horfum á lífeyrissjóðina sjálfa, fólkið í landinu eða ríkissjóð. Þessi leið mun líka kosta ríkissjóð, ekki bara þá lífeyrisþega sem hér eru undir heldur mun það kosta almenning allan á Íslandi að fara fram með þessum hætti. Pólitísk hugmyndafræði kennitöluflakkarans hefur afleiðingar. Ég hvet hæstv. ráðherra til að sýna nú ábyrgð og sýna nú skynsemi og leiða málið til lykta í gegnum samtal í stað þess að fara fram með hótunum um lagasetningu í stríði við eignarréttarákvæði stjórnarskrár.