Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 105. fundur,  10. maí 2023.

aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk fyrir árin 2024--2028.

860. mál
[16:44]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Aðeins um þær athugasemdir sem hér hafa komið fram vegna hagsmunafulltrúa eldra fólks. Þær athugasemdir finnast mér vera meira að formi til en efni. Ég trúi því ekki að neinn hér inni sé á móti því að við ráðumst í tilraunaverkefni um aukna ráðgjöf, aukna upplýsingagjöf, sem hagsmunafulltrúinn myndi m.a. sinna ef hann væri til. Það hefur engin ákvörðun verið tekin um að gera þetta ekki. Það er sama hversu oft ég segi það í þessum ræðustól, það virðist ekki síast inn. Við ætlum að safna reynslu áður en sú ákvörðun er tekin og þessi gagnrýni er því pólitískur stormur í vatnsglasi. Nýtt fjármagn er að koma inn árið 2025 samkvæmt fjármálaáætlun og ég mun nýta útgjaldasvigrúm í ár og á því næsta til að sinna þeim hluta sem snýr að félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu.

Virðulegi forseti, við erum hér að stíga skref sem munu leiða til stórbættrar þjónustu við eldra fólk með samþættingu á félagsþjónustu sveitarfélaga og heilbrigðisþjónustunni. Við erum að stórauka fræðslu, upplýsingaflæði, þróun í velferðarþjónustu við eldra fólk og áfram mætti telja og ég vil þakka nefndinni kærlega fyrir vel unnin störf í þessu máli.