Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 107. fundur,  10. maí 2023.

stjórn fiskveiða.

596. mál
[17:55]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Sigurjón Þórðarson kemur hér inn á áhugaverða hluti, fiskifræðina bak við ráðgjöf og hver sé leyfilegur heildarafli. Ég get sagt það að ég hef aldrei litið svo á að veiðiráðgjöf Hafró sé óskeikul vísindi. Þetta eru ekki þannig vísindi, það er ákveðin aðferðafræði við að reyna að ná fram sem bestum upplýsingum hverju sinni um hver sé stærð stofns viðkomandi tegundar. Þetta verða aldrei 100% vísindi. Það er heldur ekki hægt að horfa á vísindin þannig að þau séu óskeikul með þessum hætti. Það er mismunandi eftir því hvort við erum að tala um staðbundna botnfiskstofna eða deilistofna uppsjávartegunda. Í deilistofnum uppsjávartegunda er augljóst að það ríkir töluverð óvissa hverju sinni um það hver stofnstærðin sé og hver sé leyfilegur heildarafli. Þetta getur breyst. Við sjáum það í loðnumælingum. Við sjáum það eftir mismunandi árferði. Enda er gert ráð fyrir því, frú forseti, að það komi fram betri upplýsingar í þessu tiltekna máli — ég ætla ekki að fara um víðan völl um fiskveiðiráðgjöf Hafró í heild sinni hér — þar sem um er að ræða ráðgjöf um heildarafla í deilistofnum, þá er gert ráð fyrir því, komi fram betri upplýsingar, að ráðherra geti á grundvelli umsóknar Hafró hækkað þessa heimild.