Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 107. fundur,  10. maí 2023.

stjórn fiskveiða.

596. mál
[18:02]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Ég biðst afsökunar á því að hafa ekki verið mjög skýr í þessu.

Mig langaði að koma hér aðeins upp. Hér er um að ræða frumvarp sem dregur úr tegundatilfærslum milli deilistofna, sem er að sjálfsögðu af hinu góða — að það sé dregið úr mögulegri ofveiði.

En það er margt við þetta frumvarp sem kristallar það hversu skrýtið kvótakerfið er hjá okkur. Að hægt sé að flytja margar prósentur af mismunandi afla milli tegunda, jafnvel milli ára, lítur út eins og endalausir plástrar á kerfi sem virkar ekki eins og það ætti að gera.

Hv. þingmaður hér á undan mér nefndi oft að þetta væri gert til hagræðingar eða til að tryggja hagnað og til þess að við næðum sem mestu út úr þeim tegundum sem við gætum veitt.

Ég hefði viljað að við settum líffræðilegan fjölbreytileika og umhverfið í forgang og stýrðum hlutunum ekki eftir því hvernig við náum mestum peningum heldur eftir því hvernig við nýtum betur það sem við veiðum.

Dálítill hluti af breytingartillögu meiri hlutans fær mig til að hugsa mig tvisvar um. Þar er talað um, með leyfi forseta, að heimilt sé að flytja „allt að 15% af aflamarki hverrar botnfisktegundar“. Svo er talað um 10% af aflamarki hörpudisks og 5% af aflamarki rækju. Þarna er búið að setja ákveðið hámark.

Svo segir: „Ráðherra getur með reglugerð, að fenginni umsögn Hafrannsóknastofnunar, hækkað fyrrgreind hlutföll aflamarks í einstökum tegundum telji hann slíkt stuðla að betri nýtingu tegundarinnar.“

Þarna erum við að segja að það sé ekkert mál að búa til reglugerð sem tekur þessa lækkun, sem þessu frumvarpi er ætlað að koma á, og lætur hana hverfa út í veður og vind. Mér finnst svolítið skrýtið að það sé verið að gera slíkt hér — jú, eflaust til að geta veitt meira af einhverjum fiski af því að hann er inni í lögsögu okkar á einhverjum tíma. En við verðum að muna að fiskar hafa ekki alveg skilið það sem við köllum landamæri og lögsögu og annað. Þeir bara synda þangað sem þeir vilja.

Þetta er vísir að enn meiri plástraskap í kvótakerfinu. Mér finnst erfitt að styðja þetta frumvarp heils hugar þegar svona lagað er í því.