Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 108. fundur,  15. maí 2023.

bætt kjör kvennastétta og vinnudeilur.

[15:31]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Það er eitt sem hæstv. ráðherra gæti gert og einbeitt sér almennilega að og það er einfaldlega að fara í það verkefni að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. En seinna svarið veldur mér miklum áhyggjum. Er verið að segja mér það hér að félagsmálaráðherra sé bara búinn að fresta þessu grundvallarmáli, um að liðka fyrir á vinnumarkaði, fram á haustið, að það sé bara búið að fresta því án þess að það hafi verið rætt í ríkisstjórn? Mér finnst þetta enn og aftur bera keim af ákvarðanafælni og sinnuleysi ríkisstjórnarinnar í þessum stóru málum, vinnumarkaðsmálunum eins og þetta er. Við í Viðreisn erum líka búin að gera víðreist og það er sama hvort við komum í búð eða förum niður á bryggju, það er alltaf verið að biðja um ákvarðanir hjá ríkisstjórninni, hvort sem það snertir orkuskiptin eða einfaldlega að taka almennilega á ríkisfjármálunum þannig að það sé ekki verið að skuldsetja almenning fram í framtíðina. Þetta segir mér að það er eitthvað fálm og óðagot hjá ríkisstjórninni eða hún treystir sér einfaldlega ekki til þess að leggja fram frumvarp hér í þingsal (Forseti hringir.) sem hún var búin að boða og svo koma ráðherrar sem hafa m.a. verið yfir málaflokknum og segjast ekki vita neitt. (Forseti hringir.) Það eru ekki góð skilaboð ef það er þannig að ráðherrar í ríkisstjórn eru einir og sér að fresta málum, grundvallarmálum, án þess að það sé rætt í ríkisstjórn, hvað þá hér á þingi.