Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 108. fundur,  15. maí 2023.

bætt kjör kvennastétta og vinnudeilur.

[15:33]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því sem hv. þingmaður nefndi með að brúa bilið, þ.e. samtalið. Sú aðgerð ein og sér mun ekki leiða til bættra kjara kvennastétta. Hins vegar þurfum við að taka bæði fæðingarorlofið, sem heyrir undir hæstv. félagsmálaráðherra, og leikskólann og samþætta þar á milli. Sú vinna er komin í gang og þar þurfum við að kalla alla aðila að borðinu, ekki eingöngu tengda fæðingarorlofi og vinnumarkaði heldur líka leikskóla, sveitarfélög og fleiri aðila. Þegar hv. þingmaður talar um að sá sem hér standi hafi gefið það í skyn að ríkisstjórnin vissi ekkert hvað hún væri að gera vegna þess að ég væri ekki nákvæmlega með yfirlit yfir hver staðan væri á frumvarpi sem hæstv. félagsmálaráðherra hefði boðað, þá vil ég bara vísa því til föðurhúsanna. Félagsmálaráðherra heldur á þessu máli. Það eru ýmis samtöl í gangi þegar verið er að koma með frumvörp, sá sem hér stendur er ekki beint inni í þeim málum. (Forseti hringir.) En ég þykist vita að félagsmálaráðherra sé að vinna að því af miklum krafti og muni koma með það mál hingað inn í þingið þegar þar að kemur. (Forseti hringir.) Að þetta sé annaðhvort einhvers konar flumbrugangur eða að það sé einfaldlega ekki verið að vinna hlutina; ég vísa því algerlega til föðurhúsanna.

(Forseti (BÁ): Forseti vill minna bæði hv. fyrirspyrjendur og hæstv. ráðherra á það að tíminn er takmarkaður í óundirbúnum fyrirspurnum. Ræðumenn hafa tvær mínútur þegar þeir taka til máls í fyrra sinnið og eina mínútu í síðara skiptið.)