Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 108. fundur,  15. maí 2023.

sameining framhaldsskóla.

[15:35]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Í síðustu viku kom fram á fundi fjárlaganefndar að það ætti að loka Menntaskólanum við Sund í um þrjú ár eftir næsta skólaár til að gera upp og laga vegna myglumála. Ansi mikill kostnaður þar á bak við líka. Maður veltir fyrir sér í rauninni hvað á að gera fyrir nemendurna á meðan. Á sama tíma er í gangi fýsileikakönnun á sameiningu skóla, m.a. Menntaskólans við Sund og Kvennó og nokkurra annarra para af skólum. Ég spyr eins og hv. þm. Oddný G. Harðardóttir sagði hérna: Af hverju er t.d. ekki verið að skoða Kvennó og MR sem eru nálægt hvor öðrum? Það er verið að skoða sameiningu framhaldsskóla sem eru mun fjær hvor öðrum og ætti að flytja í húsnæði saman, það er mjög merkilegt. En sú tilfinning sem maður fær dálítið fyrir þessum málum er að það er gerjun í gangi.

Mig langaði að leita til ráðherra í smá einlægni þar sem við erum að sjá fram á dálítið miklar grundvallarbreytingar á skólastarfi, t.d. með tilkomu gervigreindar. Skólar og framhaldsskólar líka eru ákveðin nærþjónusta, eru í rauninni ákveðin félagsheimili, stundum næstum því félagsþjónusta. Fólk finnur fyrir ákveðnum skólaanda sem finnst í einum skóla en ekki öðrum, samsamar sig betur á einum stað en öðrum. Sameiningar skóla á þennan hátt geta valdið miklum usla í þeirri menningu. Því langar mig til að pæla aðeins í því með ráðherra hvort það sé ekki viturlegra að fara í aðeins heildstæðari skoðun á því hvernig við högum þessum málum með tilkomu nýrrar tækni, með þá staðreynd fyrir augum að skólarnir eru, eins og ég segi, dálítið eins og félagsheimili, þetta eru staðir fyrir fólk, (Forseti hringir.) nærþjónusta, sem krakkar þurfa að stunda í rauninni til að hittast. Covid var erfitt hvað þetta varðar (Forseti hringir.) og nú þurfum við að hugsa til framtíðar, ekki með einhverjum einstökum sameiningarpörunum.