Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 108. fundur,  15. maí 2023.

sameining framhaldsskóla.

[15:38]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Það er rétt að í síðustu viku ræddum við það á fundi fjárlaganefndar, sem reyndar hefur komið fram, að það væri mikill mygluvandi kominn upp í Menntaskólanum við Sund. Samkvæmt Framkvæmdasýslunni þarf að ráðast í mun meiri framkvæmdir þar en gert var ráð fyrir í upphafi. Við höfum verið að vinna með þessa stöðu og það er algerlega skýrt að þetta á ekki að hafa áhrif á skólahald næsta vetur, en þegar kemur til framkvæmda þá munum við þurfa að loka húsnæðinu í alllangan tíma og erum að vinna með þá stöðu.

Á sama tíma erum við, líkt og ég rakti í fjárlaganefnd og er allt í lagi að fara yfir hér — það höfum við líka gert í sérstakri umræðu sem var í síðustu viku — með gríðarlega margar mikilvægar áskoranir sem við þurfum að takast á við sem samfélag þegar kemur að framhaldsskólakerfinu. Við þurfum að bregðast við þessu mikla ákalli sem er í starfsnám, þar sem mörg hundruð manns hafa verið á biðlistum eftir að komast í starfsnámsgreinar. Það er alveg ljóst að hver nemandi þar kostar alla jafna hærri fjárhæðir en nemandi í bóknámi. Við erum síðan með verkefni sem ég tel gríðarlega brýnt að við ráðumst í, eins og til að mynda að taka betur utan um NEET-hópinn, þ.e. þá sem hvorki eru í framhaldsskóla né á vinnumarkaði og eru á aldursbilinu rétt eftir grunnskóla. Við þurfum að efla það sem lýtur að nemendum af erlendum uppruna. Þegar kemur að námsgagnaútgáfu á framhaldsskólastiginu þá þurfum við að stórefla hana. Allt kostar þetta fjármuni, þannig að það sem við erum að reyna að leitast við að gera í þessum fyrsta fasa í fýsileikakönnunum er að skoða leiðir til að skapa fjárhagslegt svigrúm fyrir slíkt. Við erum opin fyrir hugmyndum inn í þá vinnu. Það er ekki búið að njörva neitt niður, þannig að ef hv. þingmaður er með hugmyndir inn í það þá er sá sem hér stendur tilbúinn. Ég ætla að koma aðeins betur inn á tæknina og gervigreindina í seinna svari.