Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 108. fundur,  15. maí 2023.

frístundastyrkur.

[15:52]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn og deili þeim áhyggjum sem sannarlega eru uppi þegar kemur að stöðu barna sem búa við bág kjör. Hins vegar vil ég segja, áður en ég fer í að svara fyrirspurninni, að sem betur fer er staða barna á Íslandi almennt betri en í öllum nágrannalöndum sem við berum okkur saman við. En það er engu að síður svo að þegar eitt barn býr við skort þá er það einu barni of mikið.

Þegar kemur að umræðu um þennan sérstaka frístundastyrk þá var hann sannarlega ræddur í aðdraganda síðustu kosninga og rataði með þeim hætti inn í stjórnarsáttmála, að skoðaður yrði eða að ráðist yrði í sérstakan stuðning til handa — ég man nú ekki orðalagið nákvæmlega en hv. þingmaður er glöggur og getur flett því upp, en þar var sérstaklega kveðið á um stuðning til frístundaiðkunar barna. Við höfum verið að skoða með hvaða hætti það gæti komið til og það er alveg ljóst að við munum ekki geta tekið það í einu stóru skrefi. Það er rétt sem hv. þingmaður bendir á, að þetta er ekki fjármálaáætlun sem nú er til umræðu í þinginu, en engu að síður erum við að vinna að þessu, höfum ákveðið fjármagn til þessa málaflokks og erum að skoða með hvaða hætti við getum sérstaklega gripið inn gagnvart tekjulægstu fjölskyldunum og gagnvart börnum af erlendum uppruna. Það er nefnilega svo að þegar við réðumst í sérstakan tómstundastyrk í Covid-faraldrinum þá kom í ljós að tölfræðin sýndi okkur að jafnvel þótt við ykjum fjármagnið til tekjulægstu heimilanna þá hafði það ekki þau áhrif að við værum að ná þeim frekar inn í tómstundir og frístundir. Þess vegna erum við líka í samtali núna við íþróttahreyfinguna, til að skoða tvíþætta leið í þessu. Það er þá annars vegar fjárhagslegur stuðningur en líka að vinna í félagslega bakgrunninum og félagslegu tengingunni til að ná börnum inn í íþróttir og tómstundir. Við reiknum með því að geta kynnt einhvers konar útfærslur á fyrstu skrefum á þessu og höfum ákveðið fjármagn til þess að stíga fyrstu skref í því efni á næstunni.