Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 108. fundur,  15. maí 2023.

frístundastyrkur.

[15:54]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það hefur komið mjög skýrt fram á vettvangi fjárlaganefndar að það er ekki gert ráð fyrir þessum vaxtarstyrk, þessum frístundastyrk, í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Það var heldur ekki gert ráð fyrir honum í fjárlögum þessa árs eða þess síðasta. Það ástand sem við stöndum frammi fyrir núna, þetta mikla verðbólguástand og vaxtahækkanir, er ekki einhver rök gegn vaxtarstyrk af þessu tagi heldur sýnir einmitt þörfina á honum. 60.000 kr. styrkur til tekjulægri hópa sérstaklega er ekki eitthvað sem setur þjóðarbúskapinn á hliðina. Við höfum allt önnur meðul til að sporna gegn þenslu. Því vil ég hvetja ráðherra til dáða, einmitt vegna þess hvernig ástandið er hjá tekjulægri heimilum landsins, að hafa hraðar hendur. X-B fyrir börn, þetta var slagorðið fyrir síðustu kosningar. Framsóknarflokkurinn tók upp þennan málstað barna, „brandaði“ sig, með leyfi forseta, mjög vel með barnamálunum og ljáði (Forseti hringir.) þessum málstað inntak með því loforði. Ég held að fólkið í landinu geri þá kröfu til Framsóknarflokksins og hæstv. ráðherra að efna þetta loforð og ekki útvatna það.