Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 108. fundur,  15. maí 2023.

bardagaíþróttir.

[15:57]
Horfa

Berglind Ósk Guðmundsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ræðum um íþróttir. Við Íslendingar eigum afreksfólk í blönduðum bardagaíþróttum og hnefaleikum sem ekki er heimilt að keppa í sínu sporti hérlendis. Fortakslaust bann er við atvinnumennsku í þessum greinum. Með lögum nr. 92/1956 voru hnefaleikar bannaðir og varðar brot gegn ákvæðum laganna sektum. Með lögum nr. 9/2002 voru þó áhugamannahnefaleikar heimilaðir og hefur sportið því vaxið ár frá ári. Óumdeilt er að grundvallarmunur er auðvitað til staðar á bardagaíþróttum og öðrum tegundum íþrótta, enda hafa hnefaleikar og blandaðar bardagaíþróttir þann tilgang og markmið að keppendur veiti hver öðrum högg eða spörk og meðal annars í höfuð. En iðkendum er auðvitað fullljóst hverjar hætturnar eru og vert er að nefna að aðrar íþróttir eru auðvitað ekki með öllu hættulausar. Jafnframt ber að hafa í huga að í banni við bardagaíþróttum felst einnig skerðing á atvinnufrelsi fólks sem nýtur verndar 1. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar og óheimilt er að takmarka það frelsi með lögum nema almannahagsmunir krefjist þess. Í ljósi þess að flest vestræn ríki heimila bardagaíþróttir, m.a. Danmörk og Svíþjóð, er vandséð að almannahagsmunir á Íslandi krefjist þess að þær séu bannaðar á meðan slíkir almannahagsmunir virðast almennt ekki vera til staðar í öðrum ríkjum. Nú er það svo að við erum samanburðarhæf við ríki eins og Norður-Kóreu og Íran með þessu fortakslausa banni og það þykir mér miður.

Ég spyr því hvort hæstv. ráðherra sé tilbúinn til að taka þetta skref. Vill hæstv. ráðherra heimila atvinnumennsku í bardagaíþróttum og heiðra þannig það frábæra afreksfólk sem við eigum í þessum stóru íþróttagreinum og senda skýr skilaboð til þeirra barna og ungmenna sem æfa þessar íþróttir um að áhugamál þeirra séu ekkert minna metin en önnur?