Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 108. fundur,  15. maí 2023.

bardagaíþróttir.

[15:59]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn og bara játa það hér að ég er ekki sérfræðingur í bakgrunni hnefaleika og sögu þeirra. Ég held að hv. þingmaður hafi aflað sér meiri þekkingu á þessu en sá sem hér stendur. Það blandast inn í þetta, eins og hv. þingmaður nefnir hér, hvað eru íþróttir og hvað eru ekki íþróttir. Eru þetta íþróttir eða eru þetta ekki íþróttir? Staðan í dag er sú að það er ekki ríkið sem vottar íþróttagreinar heldur eru það íþróttalög og íþróttahreyfingin sjálf sem fer yfir það og skilgreinir hvað eru íþróttir. Það eru fleiri þættir sem hafa verið í umræðunni um hvort það séu íþróttir, ég nefni skák og brids, ég nefni rafíþróttir sem fjallað er um sem íþróttir en íþróttahreyfingin hefur ekki á grundvelli íþróttalaga viljað skilgreina það sem íþróttir. Þannig að ég er ekki viss hvort lagaheimildin liggi hjá ráðuneytinu til að gera slíkt á grundvelli íþróttalaga. Hins vegar vil ég segja að ég er alveg tilbúinn til að skoða þau mál en ég man ekki til þess að ég hafi fengið í minni ráðherratíð erindi inn sem varðar þessi mál. Það kann að vera að það hafi farið fram hjá mér. Ég er tilbúinn að skoða þessi mál en geld varhuga við því að málflutningurinn í því sé sá að við líkjumst Norður-Kóreu og Íran ef við gerum það ekki, vegna þess að ég þykist vita að það séu fleiri þjóðir en Norður-Kórea og Íran sem ekki heimila einhvers konar bardagaíþróttir. Ég vil gjalda varhuga við því að það séu rökin sem eru notuð. Sá sem hér stendur er tilbúinn til þess að skoða þessi mál en ég játa það að ég er ekki búinn að setja mig mjög djúpt inn í þau þannig að ég geti svarað þessu af mikilli dýpt.