Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 108. fundur,  15. maí 2023.

efling barnamenningar fyrir árin 2024-2028.

804. mál
[16:07]
Horfa

Flm. (Jódís Skúladóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir hönd meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun um eflingu barnamenningar fyrir árin 2024–2028.

Markmið tillögunnar og meðfylgjandi aðgerðaáætlunar er fyrst og fremst að stuðla að því að menningarlæsi, menningarþátttaka og miðlun menningararfs verði ríkur þáttur í uppvexti og skólastarfi barna. Þá er einnig miðað að aukinni samhæfingu og eflingu stefnumótunar á sviði barnamenningar og meira framboði menningar- og listfræðslu fyrir börn og ungmenni. Jafnframt skal komið á fót miðstöð barnamenningar sem verði falin yfirstjórn listverkefnisins List fyrir alla, sem og starfsemi Barnamenningarsjóðs Íslands og verði starfsemi hvors tveggja fest varanlega í sessi. Þá fari stjórn miðstöðvar barnamenningar jafnframt með stjórn Barnamenningarsjóðs.

Nefndin fjallaði um málið, fékk á sinn fund gesti og bárust umsagnir. Greint er frá því í nefndaráliti sem liggur frammi.

Í kjölfar umfjöllunar nefndarinnar um málið vill meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar árétta sérstaklega:

Þingsályktunartillaga þessi felur í sér mikilvæg skref til að halda áfram nauðsynlegri vinnu við eflingu og stefnumótun á sviði barnamenningar sem unnið hefur verið að allt frá árinu 2013 þegar Alþingi samþykkti þingsályktun um menningarstefnu, nr. 16/141, um sérstaka stefnu íslenska ríkisins á sviði lista og menningararfs. Meiri hlutinn áréttar að umsagnaraðilar hafi almennt verið jákvæðir í garð tillögunnar og fagnað því að hún sé lögð fram, þá einkum tillögum um að koma á fót miðstöð barnamenningar og festa í sessi verkefnið List fyrir alla og starfsemi Barnamenningarsjóðs.

Nefndin fjallaði um hvernig styrkja mætti menningarstarfsemi í þágu barna á landsbyggðinni þar sem listalíf hefur blómstrað með eindæmum undanfarin ár, einkum með tilkomu aðfluttra erlendra listamanna sem kjósa þar að búa og starfa. Fyrir nefndinni var bent á mikilvægi þess að gætt sé að því að fulltrúar landsbyggðarinnar sem starfi að menningarmálum utan höfuðborgarsvæðisins eigi sæti í stjórnum og úthlutunarnefndum á vegum miðstöðvar barnamenningar og að samráð verði haft við fulltrúa menningarlífsins á landsbyggðinni. Afar mikilvægt sé að liststarfsemi í þágu barna fái að blómstra sem víðast um landið og að listamönnum sem starfa á landsbyggðinni sé gert kleift að koma list sinni á framfæri með úthlutunum úr Barnamenningarsjóði. Meiri hlutinn tekur undir framangreint og telur mikilvægt að jafnræðis gagnvart landsbyggðinni sé gætt þegar að úthlutunum úr sjóðum eins og Barnamenningarsjóði kemur og beinir því til miðstöðvar barnamenningar að hafa slík sjónarmið í huga við úthlutanir úr sjóðnum. Þá telur meiri hlutinn rétt að stíga varlega til jarðar er kemur að því að gera ákveðnar kröfur eins og til að mynda þær að setja lágmarksþátttökuskilyrði í listviðburðum sem kann að gera starfsemi á landsbyggðinni erfiðara um vik en ella.

Þá fjallaði nefndin um jafnt aðgengi fyrir öll börn óháð búsetu og fötlun að listviðburðum og menningarstarfsemi. Í umsögnum Þroskahjálpar og umboðsmanns barna er gagnrýnt að ekkert komi fram í aðgerðaáætluninni um það hvernig tryggja megi að fötluð börn, sem og aðrir jaðarsettir hópar barna, fái notið þeirrar stefnu sem þar er sett fram og að þeim séu tryggð jöfn tækifæri til þátttöku. Sérstök athygli er vakin á ákvæði 2. mgr. 31. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins í þessu sambandi, sbr. lög nr. 19/2013, þar sem fjallað er um réttindi barna til að taka fullan þátt í menningar- og listalífi og skyldu stjórnvalda til að stuðla að því að þeim séu veitt jöfn tækifæri til að stunda menningarlíf og listir. Þá kunni að vera þörf á sérstökum aðgerðum með það að markmiði að tryggja aðgengi og þátttöku allra barna. Meiri hlutinn tekur undir framangreind sjónarmið og áréttar mikilvægi þess að öllum börnum, óháð félagslegri stöðu og búsetu á landinu, verði tryggt jafnt aðgengi að listviðburðum á vegum verkefnisins Listar fyrir alla og starfsemi á vegum Barnamenningarsjóðs almennt. Þá leggur meiri hlutinn sérstaka áherslu á að tryggja aðgengi og stuðla að þátttöku fatlaðra jafnt sem ófatlaðra barna, sem og barna sem tilheyra öðrum viðkvæmum hópum. Meiri hlutinn beinir því til miðstöðvar barnamenningar sem falin verður yfirstjórn Listar fyrir alla og Barnamenningarsjóðs að horfa til þeirra sjónarmiða sem fram komu við þinglega meðferð þessa máls og hafa eftir þörfum samráð við hagsmunasamtök þau sem fram koma fyrir hönd fatlaðra barna og annarra jaðarsettra hópa barna.

Nefndin fjallaði að auki um skipulag Barnamenningarsjóðs og skipan í stjórn miðstöðvar barnamenningar. Í umsögnum höfuðsafnanna þriggja og fyrir nefndinni var bent á að hagræði og meiri skilvirkni kynni að hljótast af því að skipta Barnamenningarsjóði upp í tvennt með það fyrir augum að styrkja annars vegar langtímaverkefni, t.d. verkefni til þriggja ára, og hins vegar verkefni til skemmri tíma. Slíkt fyrirkomulag kynni að auðvelda styrkþegum að ráðast í stærri verkefni og verkefni tengd landsbyggðinni. Jafnframt var óskað eftir því af hálfu höfuðsafnanna að eiga sameiginlegan fulltrúa í stjórn miðstöðvar barnamenningar. Að mati meiri hlutans eru framangreindar ábendingar gagnlegar og tekur meiri hlutinn undir það með forsætisráðuneytinu að ný miðstöð barnamenningar hafi þær til hliðsjónar í störfum sínum.

Að framansögðu virtu leggur meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar til að tillagan verði samþykkt óbreytt.

Undir nefndarálit meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar rita, auk þeirrar sem hér stendur, hv. þingmenn Bryndís Haraldsdóttir, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Birgir Þórarinsson og Jóhann Friðrik Friðriksson.

Frú forseti. Að lokum vil ég segja að mál þetta er liður í því að miðla af þeirri miklu og fjölbreytilegu menningu sem er að finna í samfélaginu. Það er kappsmál fyrir íslenska þjóð að efla menningarlæsi svo að börn og ungmenni fái hennar notið. Sömuleiðis þurfum við að tryggja aðgengi allra barna og ungmenna að listum og menningu. Aukin þátttaka þeirra í menningarlífinu ryður úr vegi hindrunum og veitir þeim aukna hlutdeild í menningu þjóðarinnar. Það er lykilatriði að samþætta þessa þætti skólastarfi. Með þessari aðgerðaáætlun byggjum við undir menningarlæsi, menningarþátttöku og miðlun menningararfs til komandi kynslóða og því fagna ég.