Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 108. fundur,  15. maí 2023.

fjármögnunarviðskipti með verðbréf.

588. mál
[16:36]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir hönd meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um fjármögnunarviðskipti með verðbréf. Helstu atriði frumvarpsins eru að þar er lagt til að ný heildarlög um fjármögnunarviðskipti með verðbréf öðlist gildi. Með lögunum verði innleidd ákvæði reglugerðar ESB nr. 2363 frá árinu 2015 um gagnsæi í fjármögnunarviðskiptum með verðbréf og um endurnotkun og breytingu á reglugerð ESB nr. 648/2012, oftast nefnd SFTR-reglugerðin, og afleiddar breytingar á öðrum lögum. Að auki er lögð til ein minni háttar breyting á lögum um aðgerðir gegn markaðssvikum sem leiðir af leiðréttingu á íslenskri þýðingu markaðssvikareglugerðarinnar.

Nefndin fjallaði um málið, fékk á sinn fund gesti og bárust umsagnir. Greint er frá því í nefndaráliti. Nefndarálitið liggur frammi.

Meiri hlutinn leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu. Í fyrsta lagi er lögð til breyting er varðar 2. gr. frumvarpsins sem kveður á um lögfestingu SFTR-reglugerðarinnar. Lagt er til að við bætist ákvæði þar sem fram komi að þegar vísað er til „laga þessara“ í lögunum sé jafnframt átt við reglugerð ESB samkvæmt ákvæðinu. Breytingin er í samræmi við ákvæði annarra laga á sviði fjármálamarkaðar g er til þess fallin að draga úr vafa sem kynni annars að vera um beitingu eftirlitsheimilda.

Í öðru lagi er lögð til breyting er varðar framsetningu orðskýringa í 3. gr. Í ákvæðinu eru settar fram orðskýringar sem eiga við um hugtök sem koma fram í SFTR-reglugerðinni. Ákvæðinu er ætlað að leiðbeina um það hvaða skilning ber að leggja til grundvallar tilteknum hugtökum í reglugerðinni þegar þau eru heimfærð á innlent réttarumhverfi með því að vísa til þeirra laga sem innleiða hugtökin í innlendan rétt. Meiri hlutinn leggur til breytingu á inngangsmálslið ákvæðisins þannig að það sé meira lýsandi um þessa þýðingu ákvæðisins, auk þess sem lagðar eru til breytingar á framsetningu nokkurra töluliða. Ekki er um efnislega breytingu að ræða og vísast til nánari umfjöllunar í nefndaráliti.

Þá er í þriðja lagi lögð til breyting er varðar 4. og 8. gr. frumvarpsins. Annars vegar er um að ræða ákvæði um eftirlit og upplýsingagjöf og hins vegar um stjórnvaldssektir. Í 9. gr. SFTR-reglugerðarinn er fjallað um valdheimildir Eftirlitsstofnunar EFTA. Með vísan til umsagnar Seðlabanka Íslands um málið telur meiri hlutinn það vera til skýringar að í framangreindum ákvæðum frumvarpsins sé vísað til nánari valdheimilda í 9. gr. reglugerðarinnar. Leggur meiri hlutinn til breytingu því til samræmis. Þá leggur meiri hlutinn einnig til, í samráði við ráðuneytið, að við 4. gr. bætist ný málsgrein sem er efnislega samhljóða 2. mgr. 5. gr. laga um afleiðuviðskipti, miðlæga mótaðila og afleiðuviðskiptaskrár, en líkt og rakið er í nefndaráliti byggjast valdheimildir samkvæmt frumvarpinu og SFTR að miklu leyti á þeim lögum og EMIR-reglugerðinni sem er innleidd með þeim. Með ákvæðinu er kveðið á um að heimild dómara þurfi til beitingar tiltekinna rannsóknaraðgerða.

Að lokum er í fjórða lagi lögð til frestun á gildistöku laganna og að hún miðist við 1. janúar 2024. Frestun á gildistöku er lögð til að höfðu samráði við ráðuneytið og ætlað að koma til móts við athugasemdir Samtaka fjármálafyrirtækja um hæfilegan frest eftirlitsskyldra aðila til þess að aðlagast nýjum kröfum. Þá er lögð til ein leiðrétting á misritun í frumvarpstexta líkt og gert er grein fyrir í nefndaráliti.

Að framansögðu virtu leggur meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir.

Undir nefndarálit meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar rita auk þeirrar er hér stendur hv. þingmenn Ágúst Bjarni Garðarsson, Diljá Mist Einarsdóttir, Guðbrandur Einarsson, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Logi Einarsson og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.