Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 109. fundur,  16. maí 2023.

Störf þingsins.

[13:34]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég tek undir allt sem fyrri ræðumaður sagði og vil bæta aðeins við. Nú er verið að halda þennan blessaða fund hérna í Hörpu, allt gott og blessað með það. Okkur var sagt fyrir áramót að það myndu verða 500 millj. kr. aukalega í kostnað út af viðbúnaði lögreglu, en sá kostnaður virðist vera kominn í einhverjar miklu meiri hæðir núna án þess að einhver hafi í rauninni samþykkt það þegar allt kemur til alls. Þegar þinginu er sagt: Þetta mun kosta 500 milljónir aukalega, en kostnaðurinn er síðan miklu meiri, þá er eitthvað skrýtið í gangi. Það er líka eitthvað skrýtið í gangi þegar lögreglan er að festa kaup á hríðskotabyssum, ekki bara út af þessum viðburði heldur til að eiga síðan varanlega eftir þennan viðburð. Það hefur einhvern veginn gerst smám saman, í hænuskrefum, að lögreglan er búin að vígbúast. Og til hvers? Fyrir hverja — í alvöru? Það er talað um skipulagða glæpastarfsemi, en gegn hverjum beinist þunginn í skipulagðri glæpastarfsemi? Ekki gegn almennum borgurum, alls ekki. Hann beinist kannski á milli glæpahópa eða eitthvað því um líkt. Almennir borgarar þurfa ekkert að óttast hana. Lögreglan sem slík þarf ekki heldur að óttast hana. Skipulögð glæpastarfsemi vill ekkert vera í einhverju stríði við lögregluna. Lögreglan á ekkert að vopnast gegn skipulagðri glæpastarfsemi, þess þarf ekki. Það er fullt af öðrum leiðum til að takast á við þann vanda sem við erum að glíma við heldur en að vopnvæðast; vopnvæðast með byssum, með orðræðu og með hræðsluáróðri. Við verðum að gera betur en þetta. Það má ekki gerast að við þokumst smám saman í átt að einhverju vígbúnu samfélagi sem þjónar í raun bara fólki sem fær einhverja öryggistilfinningu við að sjá vopnaða lögreglu (Forseti hringir.) og finnst hún vera að starfa fyrir sig. (Forseti hringir.) En það eru rosalega margir í þeim sporum að finnast lögreglan ekki starfa fyrir sig og slíkum vígbúnaði lögreglu fylgir ekki öryggistilfinning fyrir það fólk.