Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 109. fundur,  16. maí 2023.

Störf þingsins.

[13:37]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Að flytja til Íslands á tankskipum illa mengað loft og blanda því við okkar hreina vatn og dæla niður í jörðu í og við vatnsból okkar við Straumsvík er sóðaskapur og heimska af verstu gerð. Til að dæla niður illa mengandi koltvísýringi, sem er lyktarlaus og eitruð lofttegund, þarf 25 tonn af hreinu íslensku vatni fyrir hvert tonn af illa mengandi iðnaðarlofti. Í fyrsta áfanga á að dæla 500.000 tonnum, í öðrum áfanga 1 milljón tonna og í þriðja áfanga 3 milljónum tonna og til þess þarf 75 milljón tonn af hreinu íslensku vatni. Á sama tíma er verið að flytja með mengandi skipum sorpið okkar til Evrópu og jafnvel Asíu þar sem plastið okkar fer í illa mengandi plastfljót sem þar eru. Og allt er þetta gert í okkar boði. Í þessu illa mengandi máli mætti veita bronsverðlaun fyrir heimsku, silfurverðlaun fyrir að vera aðeins heimskari og gullverðlaun fyrir að vera heimskastur, því að nokkurra klukkustunda eldgos á Reykjanesi gerir þessa vatnsmengun í okkar hreina vatni að engu. Þá mega þeir einnig vera í þessa illa þokkaða verðlaunakapphlaupi heimskunnar sem láta fossa blóð í mera- og hvalaslóð. Og trúðu mér, virðulegi forseti, það er ekki vel meint, því að þeirra gjörðum ræður gróðafíknin ein, ekkert annað.

Að níðast á einu dýri til að fá afurðir til að geta níðst á öðru dýri er dómgreindarbrestur af verstu gerð og bara hrein og klár illska sem er okkur hér á Alþingi til háborinnar skammar. Ein furðulegasta hugmynd sem fæðst hefur hjá ESB er sala á mengunarsyndaaflausnarbréfum í formi upprunaábyrgða fyrir þá sem menga með kjarnorku, kolabrennslu og olíu. Þetta er gert til þess að hinir verstu umhverfissóðar geti logið um að þeir noti hreina orku frá okkur og við skreytum okkur með kjarnorku og kolabrennslu frá þeim í staðinn. Að segjast framleiða vöru hér á landi með hreinni orku má ekki, nema borga fyrir það tugmilljarða króna og þá hefur rétturinn til þess þegar verið tvíseldur til Evrópu, til umhverfissóða sem nota kjarnorku og kol til brennslu. Hverjir sitja svo í súpunni og blæða, borga fyrir hana bæði í peningum og heilsu? Jú, almenningur. Og þá bitnar það mest, eins og alltaf, á þeim fátækustu. Og að því gefna tilefni: Ríkisstjórn, hættið að skatta fátækt. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)