Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 109. fundur,  16. maí 2023.

Störf þingsins.

[13:46]
Horfa

Tómas A. Tómasson (Flf):

Virðulegi forseti. Hv. þingmenn og kæra þjóð. Ég vil lýsa yfir áhyggjum mínum af því hversu auðvelt það er fyrir erlenda aðila að kaupa íslenska jörð, sælla minninga þegar átti að selja Grímsstaði á Fjöllum fyrir ferðamannaparadís sem betur fer var komið í veg fyrir. Við vitum ekki hvernig það hefði getað endað. Erlendur breskur aðili á talsverðar jarðir á þessu landi og hann hefur lýst því yfir að hann hafi keypt þær í þeim tilgangi að vernda laxastofninn og ég veit ekki hvað og hvað. En á einhverjum tímapunkti mun þessi erlendi aðili falla frá og þá munu þeir sem eftir standa ábyggilega vilja selja jarðirnar hæstbjóðanda og við höfum ekkert með það að segja hvað verður og hvað skeður. Ég vil meina það að við, þjóðin, eigum að eiga forkaupsrétt á öllum jörðum sem seldar eru. Ég veit að sums staðar erlendis má enginn útlendingur eiga svo mikið sem einn fersentímetra í jörð á þeirra landi. Ég hefði gjarnan viljað að sú regla væri hér á þessu landi okkar, því að við vitum ekkert hvað getur skeð ef erlendir aðilar komast yfir stór landsvæði og fara að gera alls konar hluti sem við höfum enga stjórn á. Þess vegna mæli ég með því að við Íslendingar tökum fyrir það að útlendingar geti keypt íslenska jörð.