Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 109. fundur,  16. maí 2023.

Störf þingsins.

[13:48]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Leiðtogafundur Evrópuráðsins hefst í dag, það hefur ekki farið fram hjá neinum, enda um sögulegan viðburð að ræða. Fundurinn er aðeins fjórði leiðtogafundur Evrópuráðsins í 74 ára sögu þess. Samkvæmt stofnskrá Evrópuráðsins er ráðinu ætlað að efla samvinnu aðildarríkjanna með það að markmiði að standa vörð um mannréttindi, styrkja lýðræðislega stjórnarhætti, efla mannleg gildi og almenn lífsgæði Evrópubúa. Rík áhersla hefur verið lögð á að auka skilning og samkennd meðal íbúa álfunnar á grundvelli sameiginlegrar arfleifðar.

Þetta eru göfug markmið, enda ráðið stofnað í kjölfar hörmunga heimsstyrjaldarinnar síðari þegar Evrópa var í rústum og ekkert annað í stöðunni en að horfa fram á veginn og leggja allt á vogarskálarnar til að endurtaka ekki þær hörmungar. Nú er aftur stríð í álfunni og Ísland hefur mikið ábyrgðarhlutverk með formennsku sinni í Evrópuráðinu. Helstu markmið formennsku Íslands eru að efla grundvallargildi Evrópuráðsins og standa væntingar til þess að fundurinn skili raunverulegum niðurstöðum sem varða ábyrgð rússneskra stjórnvalda vegna stríðsreksturs þeirra í Úkraínu. Lögð er áhersla á að efla vinnu ráðsins, m.a. hvað varðar lýðræði, réttinn til heilnæms umhverfis og vernd mannréttinda þegar kemur að þróun gervigreindar. Það kemur heim og saman við sérstakar áherslu formennsku Íslands um umhverfismál, réttindi barna og ungmenna og jafnrétti.

Virðulegi forseti. Í gær héldu nokkrir þingmenn stjórnarandstöðunnar ræður undir liðnum fundarstjórn forseta. Þar var m.a. kallað eftir því að forsvarsfólk ríkisstjórnarinnar væri í þingsal vegna óundirbúinna fyrirspurna og látið eins og forsætisráðherra gerði sér það að leik að taka á móti leiðtogum annarra þjóða, eins og það hafi ekki þýðingu. (Gripið fram í.) Ég velti því fyrir mér hvort það séu ráðleggingar formanns flokks sem talað hefur fyrir Evrópusamstarfi um áratugaskeið að Ísland dæmi sig til áhrifaleysis á alþjóðasviðinu með því að taka ekki þátt. Í mínum huga útilokar ekki eitt annað. Jú, við þurfum að takast á við mörg þjóðþrifamál hérna heima og við erum að því. En gleymum því ekki að stórar ákvarðanir sem varða hag þjóðarinnar eru oft teknar á alþjóðasviðinu. Það er ábyrgðarhlutur stjórnvalda að leggja sitt af mörkum við slíka ákvarðanatöku og undan þeirri ábyrgð skorast ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur ekki.