Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 109. fundur,  16. maí 2023.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma.

[14:06]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Vegna þess sem forseti var að segja hérna, að það sé í lagi að svara því sem hefur fram komið áður, þá er það líka svo í þingsköpum, eins og kemur fram í góðu bókinni okkar, Háttvirtur þingmaður, með leyfi forseta:

„Í þingsköpum eru ákvæði um að forseti geti vítt þingmann ef hann talar óvirðulega um forseta Íslands eða ber þingið, ráðherra eða einhvern þingmann brigslyrðum eða víkur með öllu frá umtalsefninu.“

Nú er það svo að nokkrir þingmenn komu hérna upp í störfum þingsins og töluðu einmitt um fundarstjórnina sem var í gær af því að það var búið að boða komu fjármálaráðherra hérna síðastliðinn föstudag en hann hvarf síðan allt í einu af listanum yfir þá ráðherra sem ætluðu að mæta og sitja fyrir svörum. Það sem var beðið um var að það yrði settur aftur á óundirbúinn fyrirspurnatími seinna í vikunni til að geta átt þessar umræður. Nú er látið eins og þetta hafi verið einhver gagnrýni á það að ráðherrar hafi verið að mæta á Evrópuráðsfundinn. Það var búið að tilkynna það á föstudaginn síðasta að fjármálaráðherra ætlaði að mæta hérna en hann hætti síðan við. Auðvitað kvörtum við yfir því, að sjálfsögðu. (Forseti hringir.) Ef hann vissi sjálfur að hann ætlaði ekki að mæta á þennan fund, af hverju var þá verið að tilkynna að hann ætlaði að mæta hingað? (Forseti hringir.) Og ef hann gat það svo ekki, allt í lagi, en boðið þá óundirbúinn fyrirspurnatíma seinna í vikunni. Það var það sem var beðið um. Viljið þið hætta þessu.