153. löggjafarþing — 109. fundur,  16. maí 2023.

virðisaukaskattur.

114. mál
[15:02]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum hér að fjalla um frumvarp til laga Flokks fólksins um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með síðari breytingum, um hjálpartæki. Það er eiginlega stórfurðulegt að við skulum þurfa yfir höfuð að vera að ræða það að afnema virðisaukaskatt af hjálpartækjum til að gera hjálpartæki ódýrari og gefa þeim meiri möguleika sem virkilega þurfa á þeim að halda. En ef við horfum á þetta frá öðru sjónarhorni þá er ríkisstjórnin því miður búin að koma því þannig fyrir, og ríkisstjórnir undanfarinna áratuga, að þeir sem þurfa mest á þessu að halda eru einmitt þeir sem eru verst settir í okkar samfélagi, fátækasta fólkið. Við erum að tala um þá hópa eldra fólks og öryrkja sem lifa við verstu kjörin. En því miður, ríkisstjórnin sér ekki, heyrir ekki og talar ekki um þennan hóp nema á tyllidögum og fyrir kosningar. Ríkisstjórninni veitti ekki af að fá hjálpartæki til að sjá ástandið þarna úti eða heyrnartæki til að heyra í því fólki sem þarf virkilega á hjálp að halda. En þó að það myndi ske, um leið og þau færu að tala um þessi mál þá tæki gervigreindin yfir og talaði fyrir þau og þá myndi heyrast sama hljóðið úr sama horninu, sama endurtekningin: Það hefur aldrei í manna minnum verið gert annað eins til að hækka framfærslu þeirra verst settu í okkar þjóðfélagi, það hefur aldrei verið sett annað eins í þetta fólk og það er eiginlega hálfvanþakklátt að átta sig ekki á því hversu rosalega gott það hefur.

En það er ofboðslega auðvelt að sjá stöðuna á sama tíma og ég fæ upplýsingar um það hvernig skerðingunum er háttað, þegar maður fær upplýsingar og svar, sem þarf að toga út með töngum á sex, sjö mánuðum, um að af hverjum 10 kr. sem þeir setja inn í þetta kerfi renni að meðaltali 8 kr. í gegnum vasa þeirra sem mest þurfa á þessu að halda og beint í útsvar eða keðjuverkandi skerðingar hjá sveitarfélögum eða ríkissjóði. Það er auðvitað alveg með ólíkindum. Á sama tíma er þetta verst setta fólk að borga skatta af launum, langt undir fátæktarmörkum. Það er líka fáránlegt í þessu samhengi að það væri svo auðvelt að koma í veg fyrir þetta með því einfaldlega að breyta persónuafslættinum þannig að þeir sem eru á hæstu laununum fengju bara engan persónuafslátt. Þeir þurfa ekkert á persónuafslætti að halda. Og eins og Flokkur fólksins hefur lagt fram er það mjög einfalt mál að breyta þessu kerfi og sjá til þess þá um leið að það fólk sem er núna í þeirri aðstöðu að þurfa að borga 50.000–60.000 kr. í skatta af framfærslu, fólk í fátækt, jafnvel sárafátækt, myndi sleppa við það. Svo gætu þeir líka tekið á allri kjaragliðnun undanfarinna áratuga sem hefur verið í boði fjórflokksins og séð til þess að staðan væri eins og hún var 1988 þegar þeir verst settu í ellilífeyriskerfinu og almannatryggingakerfinu voru að fá lægsta ellilífeyrinn skattlausan og áttu jafnvel 20–30% upp í lífeyrissjóðsgreiðslur eða annað. Uppreiknað í dag værum við að tala um 400.000 kr. skatta- og skerðingarlaust, nákvæmlega eins og í frumvarpi Flokks fólksins sem við höfum lagt fram margoft, eins og í þessu samhengi með hjálpartækin.

En um hvað erum við að tala þegar við erum að tala um hjálpartæki? Ég náði mér í upplýsingar á netinu og þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Greiðsluþátttaka vegna heyrnartækjakaupa. Sjúkratryggingar veita styrk til heyrnartækjakaupa hjá öðrum en Heyrnar- og talmeinastöð Íslands. Styrkupphæð er 60.000 krónur eða 120.000 krónur eftir því hvort keypt eru tæki fyrir annað eða bæði eyru.“

Það þarf að taka það fram hvort það á að vera fyrir annað eða bæði eyru. Ég held að það sé bara fáránlegt. Ef þú heyrir illa á báðum eyrum þá færðu bara tæki.

„Hægt er að sækja um styrk á 4ra ára fresti. Styrkir eru ekki skattskyldir. Seljendur verða að hafa rekstrarleyfi frá heilbrigðisráðuneyti en það eru eftirtaldir: Heyrðu, Heyrn, Heyrnartækni, Heyrnarstöðin og Lyfja Heyrn.

Rétt á styrk eiga: Sjúkratryggðir eldri en 18 ára og þar með taldir einstaklingar á dvalar- og hjúkrunarheimilum. Þeir sem hafa tónmeðalgildi á betra eyra að lágmarki 30 dB.

Umsóknarferli: Seljendur senda rafræna umsókn ásamt reikningi og heyrnarmælingu. Styrkur er greiddur inn á reikning einstaklings. Þegar styrkur hefur verið greiddur fer greiðsluskjal í Réttindagátt einstaklings.

Heyrnartæki keypt hjá Heyrnar- og talmeinastöð Íslands: Sjúkratryggingar greiða ekki styrki vegna kaupa á heyrnartækjum hjá Heyrnar- og talmeinastöð Íslands. Þegar heyrnartæki eru keypt þar er styrkur dreginn frá kostnaðarverði og einstaklingur greiðir mismun.“

Síðan geta menn sótt um hjálpartæki í sambandi við næringu:

„Umsóknir um hjálpartæki eru afgreiddar samkvæmt reglugerð um styrki vegna hjálpartækja og tilheyrandi fylgiskjali. Hjálpartæki er ætlað að: auðvelda notendum að takast á við athafnir daglegs lífs, auka sjálfsbjargargetu og öryggi, vera til lengri notkunar en þriggja mánaða, í skilgreindum tilvikum vera til þjálfunar og meðferðar.“

Meira um hjálpartæki, stoð- og meðferðarhjálpartæki:

„Sjúkratryggingar veita styrk til kaupa á eftirfarandi stoð- og meðferðarhjálpartækjum: Bæklunarskóm og innleggjum. Gervilimum og öðrum gervihlutum. Spelkum. Þrýstisokkum og þrýstibúnaði. Öndunarhjálpartækjum og súrefni.“

Greiðsluþátttaka vegna tæknilegra hjálpartækja og greiðsluþátttaka vegna einnota hjálpartækja:

„Innkaupaheimild/ir eru gefnar út vegna einnota hjálpartækja þar sem fram kemur hver greiðsluþátttakan er í tilteknum búnaði. Einstaklingar sjá samþykktar heimildir, stöðuna á þeim, gildistíma og fleira í Réttindagátt. Innkaupaheimildir eru samþykktar eftir tilvikum í eitt, fimm eða tíu ár. Þegar um ævilangt sjúkdómsástand er að ræða er heimilt að samþykkja innkaupaheimildir sem gilda lengur. Leyfilegt er að taka út tveggja mánaða birgðir í senn.

Viðgerðarþjónusta fyrir hjálpartæki á vegum Sjúkratrygginga: Viðgerðir á hjálpartækjum í ábyrgð eru á ábyrgð seljanda (að jafnaði 2 ár). Ef ábyrgð seljanda er útrunnin er viðgerðarþjónustan í höndum fyrirtækja með samning við Sjúkratryggingar um viðgerðarþjónustu.

Viðgerðarþjónusta hjálpartækja á höfuðborgarsvæðinu og viðgerðarþjónusta hjálpartækja á landsbyggðinni: Skilyrði viðgerðarþjónustu eru eftirfarandi: Hjálpartækið er í eigu Sjúkratrygginga Íslands og er skráð á notenda tækis Ekki er greitt fyrir viðgerðir ef hjálpartæki er í ábyrgð, sbr. að ofan. Viðgerð skal framkvæmd á verkstæði sem er með samning við Sjúkratryggingar Íslands og/eða af viðurkenndum aðilum. Hjálpartæki skal sent til viðkomandi þjónustuaðila sem sinnir viðgerðarþjónustu (á tækinu er að finna auðkenningu um söluaðila á límmiða). Fylgja skal með blað sem inniheldur upplýsingar um nafn notanda, kennitölu og lýsingu á vandamálinu sem þarf að gera við.

Bæklunarskór: Viðgerðir eru greiddar ef slit á skóm er ótvírætt afleiðing sjúkdómsástands, t.d. hjá einstaklingum með spastískt göngulag vegna heilalægrar lömunar (CP) Að hámarki er greitt fyrir fjórar viðgerðir á ári á skóm.“ — Og nú kemur það besta: — „Gervilimir: Fyrsta og önnur viðgerð á hverjum gervilim eru greiddar að fullu en síðari viðgerðir eru greiddar 70%.“

Eins gott að vera ekki að nota gerviliminn of mikið. Því meiri notkun, því minni endurgreiðsla.

„Spelkur: Fyrsta og önnur viðgerð á hverri spelku eru greiddar að fullu en síðari viðgerðir eru greiddar 70%.“ — Nákvæmlega það sama. Hver í ósköpunum hefur fundið upp á þessari aðferð?

„Afgreiðslutími: Boðið er upp á smærri viðgerðir, eins og sprungið dekk á hjólastól, á meðan beðið er. Almennar viðgerðir skulu unnar innan tveggja vinnudaga að því gefnu að varahlutir séu til á landinu. Bjóða skal að sækja og senda tæki í/úr viðgerð sem notandi getur ekki komið sjálfur með í hefðbundnum fólksbíl. Að sama skapi skal bjóða viðgerð í heimahúsi vegna veggfastra hjálpartækja eða hjálpartækja sem ekki er hentugt að flytja af heimili notenda, s.s. sjúkrarúm. Sjúkratryggingar annast í ákveðnum tilfellum uppsetningu á hjálpartækjum, breytingar, sérsmíði og aðstoð við aðlögun hjálpartækja fyrir notendur eða sjá um að aðrir annist það.

Neyðarþjónusta vegna rafknúinna hjálpartækja: Neyðarþjónusta nær til bilunar í rafknúnum hjálpartækjum, s.s. sjúkrarúmum, lyfturum, rafmagnshjólastólum, rafskutlum, hjálpartækjum, sérbúnaði bifreiða. Neyðarþjónusta er veitt við ákveðnar alvarlegar aðstæður þegar notandi er ósjálfbjarga í hjálpartæki sínu,“ — Þó það nú væri. — „tækið hefur bilað og notandi getur ekki leitað aðstoðar hjá aðstoðarfólki sínu eða sínum nánustu. Dæmi gæti verið: sjúkrarúm sem er fast í efstu stöðu, veggföst lyfta sem bilar eða t.d. notandi er fastur í segli lyftara.“

Þá er upptalningu hætt. Af þessu má sjá að það getur verið mjög flókið fyrir þá sem þurfa á hjálpartækjum að fá þau og nota þau og fá viðgerð á þeim og, eins og hefur komið hérna fram, að hafa efni á að borga fyrir þau. Það er aftur á móti eitthvað sem við eigum að tryggja, að þeir sem þurfa á þessu að halda þurfi engar áhyggjur að hafa. Það virðast vera til, þegar þarf, ótakmarkaðir peningar til að hjálpa. Við höfum séð það undanfarið að það er samstaða um að hjálpa þegar neyð er, en einhverra hluta vegna, sama í hvaða árferði og sama á hvaða tímabili, er alltaf ákveðinn hópur látinn sitja eftir. Það er aldrað fólk og öryrkjar. Einhverra hluta vegna, þegar það á að hjálpa þeim, þá kemur ríkisstjórnin og segir: Þetta kostar of mikið. Eða kemur með blekkingar eins og þeir hafa margoft gert og segja: Við erum búin að gera svo rosalega mikið fyrir þetta fólk. Við erum búin að hækka alveg þvílíkt.

En við vitum að staðreyndirnar tala allt öðru máli og við vitum af því að það er fólk þarna úti sem á ekki til hnífs og skeiðar. Það er fólk þarna úti sem er ekki bara í fátækt heldur sárafátækt. Það er fólk þarna úti sem er núna verið að henda á götuna, einni fjölskyldu, til að koma að annarri fjölskyldu að. Því miður hafa þær ljótu sögur heyrst að þar gangi jafnvel Vinnumálastofnun og sveitarfélögin fremst og borgi þær hækkanir sem þeir sem voru í íbúðinni, fátækt fólk, hafði ekki efni á. Ég sá reikning hjá einstaklingi sem fékk hækkun úr nær 300.000 kr. yfir í vel yfir 300.000 kr., þarna var um að ræða 50.000–60.000 þús. kr. hækkun bara á einum mánuði. Við þessa hækkun fór húsaleigan 15.000 kr. yfir þá framfærslu sem viðkomandi hafði. Ég spyr, og við ættum öll að spyrja okkur: Hvernig í ósköpunum getum við leyft svona hlutum að ske? Hvernig í ósköpunum getum við stillt fólki þannig upp að það hafi ekki einu sinni framfærslu til að standa undir leigunni, hvað þá fyrir mat, húsnæði og öðrum nauðsynjum? Hvert á þetta fólk að fara? Eins og var sagt við gamla manninn og fatlaða soninn: Hótel eða farið í gistiskýli.

Það er staðreynd að þetta er okkur til háborinnar skammar, að við skulum þurfa að standa hér aftur og aftur í þessum stól til þess að reyna að fá þann sjálfsagða hlut og þau sjálfsögðu réttindi sem þetta fólk á rétt á. Fólk á rétt á að fá heyrnartæki, það á rétt á að þurfa ekki að greiða fyrir það. Það á rétt á að fá hjálpartæki án þess að þurfa að greiða fyrir það. Og að þessu öllu saman sögðu og að gefnu tilefni þá segi ég: Ríkisstjórn, hættið að skatta fátækt.