Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 109. fundur,  16. maí 2023.

virðisaukaskattur.

114. mál
[15:17]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil nú bara koma hérna fram og fagna framlagningu þessa frumvarps sem hefur oft verið flutt áður. Það hlýtur að vera keppikefli okkar allra að lækka þann kostnað sem fatlaðir einstaklingar verða fyrir vegna fötlunar sinnar og til þess að geta tekið þátt í mannlífinu og því sem okkur hinum finnst eðlilegt að geta gert á hverjum degi án þess að kostnaðurinn af því rjúki upp úr öllu valdi. Það er auðvitað löngu vitað og við höfum barist fyrir því öll þessi ár sem ég hef verið hérna inni að ýmiss konar afslættir eða framlög til tækjakaupa haldi verðgildi sínu, standi í þeirri krónutölu sem upphaflega var gert ráð fyrir og greiði þá ákveðna prósentu af kostnaði við tækin. Það gerist nú yfirleitt þannig að mjög fljótlega fer að halla á þann fatlaða, verðgildi þeirra framlaga sem ríkið er að leggja fram minnkar stöðugt. Það er ekki aðeins í þessum málaflokki, það er nú bara sérstakt vandamál hjá okkur að slík framlög haldast yfirleitt ekki í hendur við þróunina. Ég held að það sé bara mjög mikilvægt að þau viðmið sem hér hafa verið höfð uppi taki mið af einhverju föstu í fjárlögum þannig að þau haldi ár frá ári og við séum ekki alltaf að tala hér um sömu hlutina og benda á sömu aðstæðurnar og benda á sama fólkið, við hvaða aðstæður það býr. Við viljum öll laga það en það gerist ekki nógu hratt.

Hér hafa verið fluttar tvær mjög góðar ræður um stöðuna í þessum málaflokki, um kostnað fólks við að reyna að taka þátt í almennu lífi, og ég þarf ekki að endurtaka það. Það þarf ekki að taka það fram að fyrir okkur venjulega Íslendinga tekur í að kaupa 600.000 kr. heyrnartæki og bara hjá öllum, ekki bara fötluðu fólki, en það tekur sérstaklega í hjá þeim sem lægst hafa launin. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að það fólk hafi aðgang að slíkum tækjum sem er auðvitað bara gjörbylting og breytir lífi margra og þeirra sem á því þurfa að halda. Það er betri færni og betra líf sem við viljum fyrir alla. Þetta frumvarp boðar það og þess vegna mun ég styðja það. (IngS: Heyr, heyr.)