Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 109. fundur,  16. maí 2023.

kosningalög.

497. mál
[15:42]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni fyrir hans framsögu í þessu máli. Líkt og kom fram í upptalningu hans eru ekki meðflutningsmenn úr Vinstrihreyfingunni – grænu framboði á málinu en það breytir hins vegar ekki því að við í Vinstri grænum erum efnislega sammála málinu og nokkrir þingmenn úr okkar röðum hafa lagt fram frumvarp sem er að hluta samhljóða því máli sem við ræðum hér, um að lækka kosningaaldur niður í 16 ár. Ég held að það sé gott mál og mikilvægt og vildi í rauninni fyrst og fremst koma hér upp í það sem kallað er andsvar til þess að lýsa mig efnislega sammála málinu og jafnframt vekja máls á því að það er annað mjög svipað frumvarp sem við nokkrir þingmenn Vinstri grænna höfum lagt fram og höfum raunar verið með samhljóða mál á fyrri þingum. Fyrir nokkrum árum var það meira að segja þannig að málið komst til 3. umr., en komst ekki til lokaatkvæðagreiðslu og varð því ekki að lögum.

Ég er sammála hv. þingmanni í því að það skiptir máli að ungt fólk sitji við borðið þegar kemur að því að taka ákvarðanir og það að geta komið sínum sjónarmiðum að í kosningum er mikilvægur hluti af því og ég ætla að vona að þetta mál hljóti framgang hér á þingi.