Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 109. fundur,  16. maí 2023.

kosningalög.

497. mál
[15:46]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála því sem kemur fram hjá hv. þingmanni varðandi barnasáttmálann. Það má bæta við fleiri rökum og fleiru en því sem talið er upp í greinargerðinni með því frumvarpi sem við ræðum hér. Í sambærilegu frumvarpi sem Orri Páll Jóhannsson, hv. þingmaður Vinstri grænna, er fyrsti flutningsmaður að, er m.a. rakin í greinargerð jákvæð reynsla í ýmsum Evrópulöndum þar sem kosningaaldur er lægri og 16–17 ára geta tekið þátt í kosningum. Það eru önnur sjónarmið sem ég tel vert að líta til og gott að leita fanga í greinargerð með því frumvarpi. Svo finnst mér líka stundum ágætt að minna á rökin sem minn unglingur minnti mig nú bara á um daginn í umræðu um þessi mál og sagði: Ja, fyrst ég get farið að borga skatta 16 ára þá hlýt ég líka að vera til þess bær að hafa skoðun á því í hvað skattfé er varið. Mér finnst það ágæt rök til þess að lækka kosningaaldur bara almennt. En ég held að það sé sniðugt að byrja á nærsamfélaginu. Og ég endurtek það sem ég sagði hér áðan, að þrátt fyrir að vera ekki meðflutningsmenn á þessu frumvarpi þá eru þingmenn Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs með keimlíkt frumvarp og eru efnislega sammála því sem hér kemur fram.