153. löggjafarþing — 109. fundur,  16. maí 2023.

merking á vörum frá hernumdum svæðum Palestínu.

777. mál
[16:15]
Horfa

Flm. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um merkingu á vörum frá hernumdum svæðum Palestínu. Meðflutningsmenn að þessari tillögu eru úr nokkrum flokkum en það eru hv. þingmenn Orri Páll Jóhannsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Gísli Rafn Ólafsson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Guðbrandur Einarsson, Jóhann Páll Jóhannsson og Viðar Eggertsson.

Tillögutextinn hljómar svona, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að grípa til nauðsynlegra ráðstafana annars vegar til að merkja uppruna vara sem framleiddar eru á hernumdum svæðum Palestínu með viðeigandi hætti og hins vegar til að gera Palestínumönnum kleift að nýta sér kosti fríverslunarsamnings EFTA og Palestínu.“

Ég ætla að fara hér yfir rökstuðning með þessari tillögu til þingsályktunar og styðst þar vitaskuld við greinargerð sem fylgir þingmálinu og vísa jafnframt frekar til hennar. Þessi tillaga hefur verið flutt þó nokkuð oft áður og má rekja uppruna hennar allt aftur til 141. löggjafarþings. Þingmenn eins og Árni Þór Sigurðsson, fyrrum þingmaður Vinstri grænna, hefur verið fyrsti flutningsmaður á henni sem og einnig Katrín Jakobsdóttir, hæstv. forsætisráðherra, en þetta mál hefur því miður ekki enn hlotið afgreiðslu og er nú endurflutt efnislega óbreytt en greinargerðin hefur verið uppfærð. Það hefur verið gert nokkuð oft í tímans rás, bæði hvað varðar viðskiptatölfræði milli Íslands og Ísraels og Palestínu, en einnig vegna breytinga sem hafa komið m.a. frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og ég mun nánar koma að seinna í ræðu minni.

Mig langar áður en lengra er haldið að minna á það að hér á Alþingi var 29. nóvember árið 2011 samþykkt þingsályktun um viðurkenningu á sjálfstæði og fullveldi Palestínu. Þá ályktaði Alþingi að fela ríkisstjórninni að viðurkenna Palestínu sem sjálfstætt og fullvalda ríki innan landamæranna frá því fyrir sex daga stríðið árið 1967. Jafnframt skoraði Alþingi á Ísraelsmenn og Palestínumenn að leita sátta með friðarsamningum á grundvelli þjóðaréttar og ályktana Sameinuðu þjóðanna sem m.a. feli í sér gagnkvæma viðurkenningu Ísraelsríkis og Palestínuríkis. Ástæðan fyrir því að ég rifja upp þessa þingsályktun er ekki bara vegna þess að staðan í Palestínu er með þeim hætti að henni þarf að halda á lofti og fylgja eftir heldur einnig vegna þess að þessi dagsetning, þar sem vísað er til landamæranna frá því fyrir sex daga stríðið árið 1967, skiptir máli efnislega fyrir þá þingsályktunartillögu sem ég mæli fyrir núna, tillögu sem að sjálfsögðu er utanríkismál en er einnig neytendamál hér á Íslandi og ég tel að þurfi að skoða líka í því ljósi. Hér að lokinni þessari umræðu verður málinu vísað til utanríkismálanefndar en ég held að það skipti máli í umfjöllun nefndarinnar að halda jafnframt til haga neytendavinklinum sem er líka mikilvægur í þessu máli og ég mun koma að seinna hér síðar í ræðu minni.

Stjórnmálasamband Íslands og Ísraels á sér langa sögu og hafa viðskipti milli þjóðanna verið töluverð. Nýjustu tölur sem ég er með eru frá árinu 2020 en þá nam innflutningur frá vörum frá Ísrael rétt tæpum 700 millj. kr. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands var á árunum 2010–2020 ekkert flutt inn frá Palestínu.

Víða um heim hafa stjórnvöld og neytendur vaknað til vitundar um að hluti útflutningsvara frá Ísrael eigi uppruna sinn að rekja til ólöglegra landnemabyggða á hernumdum svæðum Palestínu, en þær eru einkum á Vesturbakka Jórdanar og í austurhluta Jerúsalemborgar, en ekki til svæða innan alþjóðlega viðurkenndra landamæra Ísraelsríkis. Þessum byggðum hefur farið fjölgandi og samhliða hefur íbúafjöldinn í þeim vaxið enda þótt þessar byggðir stríði gegn alþjóðlega viðurkenndum landamærum.

Eins og gefur að skilja þá hefur þessi þróun skaðað lífskjör Palestínumanna en ég held að það sé líka mikilvægt að benda á að þessar byggðir eru einnig umdeildar meðal ísraelska borgara. Núverandi stjórnvöld í Ísrael fylgja þeirri stefnu að taka aukið land og vatnsból frá Palestínumönnum undir byggðir og nyt landnemanna og þetta hefur reynst einn helsti þröskuldurinn í vegi frekari friðarviðræðna fyrir botni Miðjarðarhafs auk þess sem kemur reglulega til átaka milli landnema og Palestínumanna sem verða að sjá á eftir ræktarlöndum sínum.

Frú forseti. Þó svo að ræðutími sé takmarkaður langar mig að fá að vitna, með leyfi forseta, í ágæta bók Sigríðar Víðis Jónsdóttur sem heitir Vegabréf: Íslenskt og kom út fyrir skömmu því að hún lýsir svo ágætlega þessum aðstæðum í fjarlægum heimshlutum sem er kannski erfitt að sjá fyrir sér. En þar segir, með leyfi forseta:

„Vesturbakkinn er innan við 6.000 ferkílómetrar. Það er töluvert minna en Vestfjarðakjálkinn. Þessa stærð er ágætt að hafa til hliðsjónar þegar hugleitt er að þetta vor, árið 2010, eru þar ríflega 300.000 ísraelskir landtökumenn.“

Þetta var árið 2010. Það kemur fram síðar í bókinni þar sem fjallað er um hvernig ástandið er núna, nær okkar samtíma, að á þessu svæði sem er minna en Vestfjarðakjálkinn nálgast íbúafjöldinn nú óðfluga hálfa milljón. Mér finnst þetta skipta máli til að reyna að draga upp myndina af því sem við erum að ræða um hérna.

Ísland hefur aldrei, ekki frekar en Sameinuðu þjóðirnar, viðurkennt landnemabyggðirnar sem hluta af Ísraelsríki. Því ætti ekki að viðurkenna Ísraelsríki sem upprunaland þeirra vara sem framleiddar eru í landnemabyggðunum. Framkvæmdastjórn ESB sendi frá sér leiðbeiningar hvað slíkar merkingar varðar árið 2015. Þá var tekist á um gildi þeirra fyrir Evrópudómstólnum í máli sem höfðað var vegna framkvæmdar franskra stjórnvalda á þeim. Dómstóllinn úrskurðaði í nóvember árið 2019 að fyrirmælin væru í samræmi við reglugerðir ESB um rétt neytenda til upplýsinga um framleiðslustað vöru.

Frú forseti. Ég vil benda á það að Norðmenn hafa tekið mið af þessu og á síðasta ári tilkynntu norsk stjórnvöld að merkingin „Framleitt í Ísrael“ eða, með leyfi forseta, „Made in Israel“, er einungis heimil á vörum frá svæðum sem tilheyra Ísrael frá því fyrir sex daga stríðið árið 1967. Aðrar vörur þurfi að merkja sem vörur sem framleiddar er á hernumdum svæðum. Þannig að þetta hefur verið tekið upp í nágrannalandi okkar.

Með þessum ráðstöfunum sem þessi þingsályktunartillaga kallar eftir yrði íslenskum neytendum gert kleift að taka sjálfir ákvörðun um hvort þeir vilji styðja efnahagslíf á ólöglegum landnemabyggðum á hernumdu svæðum Palestínu. Það er ekki einu sinni víst að sérmerking slíkra vara hefði mikil áhrif á viðskipti Íslands og Ísraels og gæti jafnvel haft þær afleiðingar að gera þær vörur sem skráðar eru sem ísraelskar afurðir síður tortryggilegar þannig að ég myndi segja að þetta sé mjög hógvær tillaga sem hér er lögð fram. Hún er í samræmi við ályktun Alþingis um að viðurkenna Palestínu innan landamæranna frá því fyrir sex daga stríðið 1967. Hún talar samt á sama tíma mjög skýrt gegn því að hægt sé að selja vörur frá herteknu landi án þess að geta þess sérstaklega.

Að lokum langar mig að víkja örfáum orðum að seinni hluta tillögunnar sem fjallar um að gera Palestínumönnum kleift að nýta sér kosti fríverslunarsamnings EFTA og Palestínu en það var gerður bráðabirgðafríverslunarsamningur sem tók gildi árið 1999 en hann hefur því miður í raun ekki virkað sem skyldi og þess vegna er mikilvægt að halda honum á lofti.

Nú á lokasekúndunum langar mig að segja að því miður er verið að selja hér á landi vörur sem eiga uppruna sinn að rekja til hernumdu svæðanna. Það á m.a. við um nokkrar tegundir af víni sem hægt er að kaupa í ríkinu. Mér finnst mikilvægt að við sem neytendur getum forðast að kaupa slíkar vörur, enda eru þær í trássi við það sem við höfum sagt samþykkt hér á þingi. (Forseti hringir.) Þetta er því mikilvægt mál. Þetta er réttlætismál. Þetta er fyrst og fremst réttlætismál fyrir Palestínumenn en einnig fyrir íslenska neytendur.

Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til utanríkismálanefndar.