Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 109. fundur,  16. maí 2023.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um innheimtu dómsekta.

814. mál
[16:31]
Horfa

Flm. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir áliti meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um skýrslu Ríkisendurskoðunar um innheimtu dómsekta. Undir þetta álit skrifa ásamt mér hv. þingmenn Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður nefndarinnar, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Berglind Ósk Guðmundsdóttir, Halla Signý Kristjánsdóttir, Hildur Sverrisdóttir, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir og Sigmar Guðmundsson.

Við í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd höfum haft þann háttinn á þetta kjörtímabil, undir dyggri forystu formanns nefndarinnar, hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur, að koma álitum nefndarinnar á dagskrá hér á Alþingi og gera stuttlega grein fyrir þeim og jafnvel taka þátt í umræðu eftir atvikum, sem fer fram í einni umræðu hér í þingsal.

Með bréfi, dags. 16. janúar 2023, sendi forseti Alþingis skýrslu Ríkisendurskoðunar um innheimtu dómsekta til umfjöllunar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í samræmi við reglur um þinglega meðferð skýrslna Ríkisendurskoðunar. Úttektin var unnin að frumkvæði ríkisendurskoðanda en hún á rætur sínar að rekja til stjórnsýsluúttektar embættisins á málefninu frá 2009 og tveimur eftirfylgniskýrslum. Það er því augljóst að þetta umfjöllunarefni, innheimta dómsekta, hefur lengi verið skoðunarefni Ríkisendurskoðunar og mér finnst mikilvægt að ríkisendurskoðandi hefur haldið á þessum málum og fylgt því eftir með tveimur eftirfylgniskýrslum. Vonandi þurfa þær ekki að verða fleiri heldur tekst okkur vonandi að koma þessum málum í viðunandi horf þannig að ekki þurfi frekari eftirfylgni.

Frú forseti. Ég ætla að rekja í stuttu máli og stikla á stóru um meginniðurstöðu skýrslunnar sem og umfjöllun nefndarinnar en ekki að lesa álit meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar frá orði til orðs heldur vísa í það til frekari skýringar og greiningar. Skýrsluna sjálfa geta þau sem áhuga hafa á málinu nálgast á heimasíðu ríkisendurskoðanda til enn frekari glöggvunar.

Meginniðurstaða skýrslunnar er að innheimtuhlutfall dómsekta er lægra á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndum. Þannig hefur það verið um árabil. Bent er á að dómsmálaráðuneytið og forverar þess hafi ekki gripið til viðunandi aðgerða til úrbóta þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar Ríkisendurskoðunar frá 2009, tillögur starfshóps að bættu innheimtuhlutfalli sekta og sakarkostnaðar og áskoranir sýslumannsins á Norðurlandi vestra. Bent er m.a. á það í úttektinni að innheimta dómsekta hafi í rauninni versnað frá fyrri úttektum stofnunarinnar. Stór hluti þeirra dómsekta sem kveða á um hærri fjárhæðir eru til komnar vegna brota á skattalöggjöfinni. Við erum því að ræða um sektir vegna brota sem eru til komin vegna þess að það er verið að fara á svig við skattalöggjöfina, þ.e. standa ekki skil á þeim sköttum sem lögum samkvæmt á að gera. Ríkisendurskoðun vekur athygli á því að þrátt fyrir ákvæði laga, sem kveða á um að við meiri háttar skattalagabrotum skuli dómþolar sæta fangelsi allt að sex árum, þá heyri til undantekninga að óskilorðsbundin fangelsisvist sé dæmd.

Í skýrslunni kemur fram það mat Ríkisendurskoðunar að samfélagsþjónusta geti í mörgum tilvikum verið viðeigandi fullnustuúrræði en það beri þó að varast að beita henni í of miklum mæli. Slíkt geti dregið úr vægi og fælingarmátt refsinga.

Að mati Ríkisendurskoðunar er nýting fangelsisrýma verulegt áhyggjuefni hér á landi og bent er á að nýtingarhlutfall fangelsisrýma sé langt fyrir neðan öryggisviðmið þrátt fyrir að boðunarlistar séu langir og fjöldi dóma fyrnist á ári hverju.

Á grundvelli úttektarinnar setur Ríkisendurskoðun fram þrjár tillögur til úrbóta. Fjalla þær um aðgerðir sem dómsmálaráðuneyti þarf að grípa til vegna lágs innheimtuhlutfalls dómsekta, að meta þurfi hvort skilgreina eigi samfélagsþjónustu sem refsingu í stað fullnustuúrræðis og að bæta þurfi nýtingu fangelsisrýma.

Ég ætla að stikla á stóru í umfjöllun stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um skýrsluna. Fyrst ber þar að nefna að bregðast þurfi við lágu innheimtuhlutfalli dómsekta, en líkt og ég rakti hér þá á þessi skýrsla Ríkisendurskoðunar sér ansi langan aðdraganda sem rekja má allt aftur til ársins 2009. Í áliti meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar segir:

„Líkt og fram kemur í skýrslunni er stór hluti þeirra dómsekta sem kveða á um hærri fjárhæðir til kominn vegna brota á skattalöggjöfinni. Að mati meiri hlutans er innheimta sekta og sakarkostnaðar í óviðunandi ástandi.“

Það var bent á það fyrir nefndinni að tíð ráðherraskipti og heimsfaraldur kórónuveiru hafi m.a. valdið því að tafir hafa orðið í þessum málum. Meiri hluti nefndarinnar vill taka það fram að þessi staða er ekki nýtilkomin en telur hins vegar jákvætt að ráðuneytið hafi nú tekið tillögurnar til vinnslu. Fyrir nefndinni kom fram að fyrirhugað sé að leggja frumvarp fyrir Alþingi á árinu sem taki mið af tillögunum og vill meiri hluti nefndarinnar hvetja ráðuneytið til að halda vel utan um þá vinnu. Vill meiri hlutinn líka taka fram að það er gagnrýnivert að fyrirspurnum Ríkisendurskoðunar hafi, líkt og kemur fram í skýrslunni, verið svarað seint. Við viljum minna á það að Ríkisendurskoðun er stofnun á vegum Alþingis sem fer með umboð með tilteknu eftirliti með stjórnvaldsframkvæmdum og við í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd tökum hlutverk okkar alvarlega og okkur finnst mikilvægt að Ríkisendurskoðun, sem er jú stofnun á okkar vegum, fái greinargóðar upplýsingar frá ráðuneytum til að geta unnið sín mál sem allra best. En, líkt og ég sagði áðan, þá teljum við það jákvætt að ráðuneytið sé nú að taka tillögurnar til frekari vinnslu og fyrirhugað sé að leggja fram frumvarp.

Nefndin fjallaði um tillögu um launaafdrátt. Í skýrslunni er fjallað um að kanna þurfi hvort lögfesta beri heimild til að draga sektarfjárhæðir frá launum en að mati stofnunarinnar væri hún til þess fallin að bæta innheimtuhlutfall dómsekta. Að mati meiri hlutans myndi launaafdráttur fela í sér töluverða breytingu á fyrirkomulagi dómsekta hér á landi. Fyrir nefndinni voru reifuð ýmis sjónarmið sem mæltu með og á móti úrræðinu en meiri hlutinn telur að þetta úrræði gæti haft jákvæð áhrif á innheimtu sekta og sakarkostnaðar og beinir því til dómsmálaráðuneytisins að taka úrræðið til vandlegrar skoðunar. Eitt af því sem þar mætti skoða, og var rætt í nefndinni en kemur ekki fram í þessu áliti, var til að mynda hvort það mætti undanskilja sumar launagreiðslur frá launafrádrætti.

Nefndin fjallaði einnig um beitingu samfélagsþjónustu sem fullnustuúrræðis. Samfélagsþjónusta felur í sér tímabundið ólaunað starf í þágu samfélagsins sem getur komið í stað afplánunar í fangelsi. Þetta er atriði sem þarf að skoða gaumgæfilega. Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um mikilvægi samfélagsþjónustu og meiri hlutinn tekur undir þau. Við viljum hins vegar draga það fram að Ríkisendurskoðun telur að beiting samfélagsþjónustu sem fullnustuúrræðis í stað fangelsisvistar hafi bein áhrif á innheimtu og ýti undir slakan innheimtuárangur dómsekta. Að mati meiri hlutans er mikilvægt að dómsmálaráðuneytið fylgi þessari tillögu Ríkisendurskoðunar vel eftir og taki til vandlegrar skoðunar hvort ákvörðun um samfélagsþjónustu eigi að vera í höndum stjórnvalda eða hvort kveða eigi á um slíkt í dómi. Ef það á að fara að beita þessu úrræði í auknum mæli þá skiptir máli að fjallað sé sérstaklega um það.

Fjölgun fangelsisrýma hefur verið leiðarstef í ábendingum um bætta innheimtu dómsekta. Fyrir nefndinni kom fram að því sjónarmiði hafi ítrekað verið komið á framfæri við gerð fjármálaáætlunar að auka þurfi fjármagn til málaflokksins en það kom einnig fram að dómsmálaráðuneytið vinni nú að því að tryggja Fangelsismálastofnun viðeigandi fjárveitingu með það að markmiði að nýta þau fangelsisrými sem þegar eru til staðar. Meiri hlutinn brýnir ráðuneytið til að vinna markvisst að úrlausn þessara mála og telur að óbreytt ástand dragi úr varnaðaráhrifum refsinga og auki líkur á fyrningu dóma en við slíkt verður ekki unað.

Frú forseti. Ég hef gert hér grein fyrir áliti meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um skýrslu Ríkisendurskoðunar um innheimtu dómsekta sem lögð er fram til einnar umræðu. Að lokum vil ég segja að ég bind vonir við að verið sé að taka þessi mál fastari tökum. Í mínum huga er það algjört sanngirnismál því að auðvitað á það ekki að vera þannig að hægt sé að komast upp með það að svíkja undan skatti og fara þannig á svig við landslög og koma sér undan því að borga til samfélagsins án þess að viðhlítandi refsing komi á móti. Hér getur verið um háar upphæðir að ræða og það er ekki gott að þær fyrnist eða það verði á einhvern hátt ekkert úr þeim því það dregur auðvitað úr fælingarmætti laganna og er ekki til þess fallið að við getum hér haldið uppi öflugu og kraftmiklu samfélagi sem við rekum fyrir almannafé sem allir, bæði einstaklingar og lögaðilar, leggja fram í samræmi við þau lög sem ákvörðuð eru hér á Alþingi.