153. löggjafarþing — 110. fundur,  23. maí 2023.

aðgerðir ríkisstjórnar í efnahagsmálum.

[13:37]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þó að mistök hafi verið gerð þá þýðir ekki að gefast upp núna. Mig langar til að stappa aðeins stálinu í hæstv. ríkisstjórn. Nú eru þrjár vikur eftir af þingárinu eða níu þingfundir samkvæmt starfsáætlun Alþingis og enn þá er verið að hækka vexti. Að öllum líkindum fáum við líka hressilega vaxtahækkun í fyrramálið. Öll viðbrögð við fjármálaáætlun sýna að aðgerðir hæstv. ríkisstjórnar gegn verðbólgu eru of veikar og það eru kjarasamningar í haust. En hvað getum við þá gert núna áður en þingið fer í sumarfrí? Það er nefnilega enn þá tími til stefnu. Á að nýta tímann eða verður vorið bara látið líða svona, án frekari aðgerða?

Forseti. Ég er ekki bjartsýn á að hæstv. ríkisstjórn ráðist í aðgerðir til að vinna gegn þenslu, t.d. með því að taka á þenslunni þar sem hún er í raun eins og við í Samfylkingunni höfum talað fyrir, en verðbólguþróun næstu mánaða og næsta árs verður mjög háð þeim væntingum sem verða hér í landinu um kjarasamninga og niðurstöðu þeirra. Það er ábyrgð hæstv. ríkisstjórnar að reka velferðarstefnu sem stuðlar að stöðugleika á vinnumarkaði og kemur í veg fyrir að við göngum inn í enn eitt árið af verðbólgu og vaxtahækkunum.

Forseti. Ef hæstv. ríkisstjórn er reiðubúin að stíga upp núna og nýta tímann fram að þinglokum þá erum við í Samfylkingunni boðin og búin til að leggja okkar af mörkum. Vissulega hafa verið gerð mistök í hagstjórninni en það þýðir ekki að hengja haus yfir því. Núna þarf að horfa fram á veginn og því spyr ég hæstv. forsætisráðherra: Kemur til greina að nýta tímann sem við höfum fram að þinglokum til að ráðast í aðgerðir sem verja heimilin og stuðla að stöðugleika á vinnumarkaði? Kemur til greina að ná saman fyrir þinglok um leigubremsu í fyrsta lagi og í öðru lagi um aukinn stuðning við fólk í gegnum vaxtabætur?