153. löggjafarþing — 110. fundur,  23. maí 2023.

aðgerðir ríkisstjórnar í efnahagsmálum.

[13:41]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Já, við virðumst vera svolítið föst í fortíðinni vegna þess að vandinn sem við erum að tala um núna er vandi sem er að fara að birtast á næstu tveimur, þremur mánuðum. Það er talað um að snjóhengja lána, óverðtryggðra lána sem eru að losna af föstum vöxtum, blasi við núna í haust. Við erum að sjá sögulegar vaxtahækkanir, mögulega mikla vaxtahækkun í fyrramálið. Við getum rökrætt hér í allan dag um hvað hæstv. ríkisstjórn hefur gert hingað til. En spurning mín til hæstv. forsætisráðherra sneri að því hvort skilaboðin til almennings þarna úti séu að við förum með óbreytt ástand inn í sumarið, vitandi það að niðurstaða kjarasamninga í haust er að fara að leggja grunn að verðbólgunni á næsta ári, vitandi það sem verkalýðshreyfingin í dag er að tala um varðandi leigubremsu, varðandi vaxtabætur, varðandi styrkingu á þessum kerfum. Þannig að ég ítreka mína spurningu: Verður ekkert meira gert en það sem birtist í fyrstu drögum að fjármálaáætlun og flestir eru sammála um að er ekki nóg til að vinna gegn verðbólgu?