153. löggjafarþing — 110. fundur,  23. maí 2023.

frumvarp um heimildir ríkissáttasemjara.

[13:49]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Já, hæstv. fjármálaráðherra kemur hingað upp og segir í rauninni: Sjáið þið ekki veisluna? Eru ekki allir sem sjá veisluna hér í dag? Það sem mér finnst hins vegar verra er að ríkisstjórnin treystir sér ekki til að taka þessi erfiðu samtöl sem þarf til þess að taka ákvarðanir í stórum málum. Hluti af því er m.a. að klára það að afgreiða heimildir til ríkissáttasemjara. Það er hluti af þessum erfiðu samtölum sem ríkisstjórnin treystir sér ekki í. En það eru hins vegar aðrir aðilar í samfélaginu dag sem þurfa að taka erfið samtöl, m.a. þau sem hafa tekið lán, verðtryggð sem óverðtryggð lán, á síðustu misserum, sem fóru í það að taka þessi lán m.a. út af kosningaloforðum Sjálfstæðisflokksins sem sagði: Ísland er lágvaxtaland. Hallelúja. Það eru nákvæmlega þessir einstaklingar, ungt fólk, lágtekju- og millitekjufólk sem taka þarf erfiðu samtölin heima í eldhúsi um það hvernig eigi að brúa bilið því það kemur ekkert frá ríkisstjórninni. Hún tekur ekki ákvarðanir, (Forseti hringir.) hvorki í stórum né smáum málum, mikilvægum málum fyrir heimilin í landinu.