153. löggjafarþing — 110. fundur,  23. maí 2023.

stýrivextir og aðgerðir stjórnvalda gegn verðbólgu.

[14:01]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Svarið við síðustu spurningunni er nei. Við erum ekki búin að gefa þetta frá okkur. Við erum í miðju þingi og höfum verið með aðgerðir á þessu þingi til þess að mæta stöðu þeirra sem minnst hafa á milli handanna. Við höfum sagt frá upphafi að okkar aðgerðir myndu annars vegar snúast um það að nýta ríkisfjármálin til að styðja við lægri verðbólgu og hins vegar að grípa til aðgerða til að verja stöðu þeirra sem eru viðkvæmastir fyrir verðbólguhækkun. Um það vitna aðgerðir okkar um síðastliðin áramót og nú höfum við boðað að á þessu þingi verði lögð til breyting á almannatryggingakerfinu til þess að hækka bætur í takt við verðhækkanir sem eru umfram forsendur fjárlaga.

Að öðru leyti er dálítið erfitt að fara inn í svona stórt mál í stuttri fyrirspurn. Hér er í raun og veru þeirri kenningu varpað fram að við eigum ekki að vera með sjálfstæða peningastefnunefnd sem hafi vaxtaákvörðunartæki með þeim hætti sem á við í dag. Ég held að býsna mikið sé sagt með því. Hér á þinginu hefur verið samstaða um að reka sjálfstæðan seðlabanka, hafa hér sjálfstæða peningastefnunefnd og fela Seðlabankanum það verkefni að vernda verðgildi peninganna og að stefnt skuli að því að verðbólga í landinu sé að jafnaði í kringum 2,5%, og að færa þurfi fram sérstaka greinargerð ef verðbólgan fer út fyrir vikmörk sem eru þá 4%. Þetta er það grundvallarkerfi sem við erum með. Auðvitað hafa verið smíðuð önnur stjórntæki sömuleiðis sem Seðlabankanum standa til boða og sumum þeirra er verið að beita um þessar mundir. (Forseti hringir.) En hér er því greinilega haldið fram að vextir skipti engu máli og best væri að sleppa því að hækka þá. Ég get ekki tekið undir þann málflutning.