153. löggjafarþing — 110. fundur,  23. maí 2023.

stýrivextir og aðgerðir stjórnvalda gegn verðbólgu.

[14:05]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Þegar ég sagði að ég skildi hv. þingmann þannig að vextir skiptu ekki máli þá var ég að meina í baráttunni við verðbólguna. Þessi málflutningur, um að betra væri fyrir heimilin að sleppa vaxtahækkunum, gengur einfaldlega ekki upp í mínum huga. Ef þú tekur það stjórntæki úr höndum Seðlabankans, eins og mér finnst vera látið liggja að hér að ætti að gera, þá hefur nákvæmlega ekkert verið gert vegna verðbólgunnar sérstaklega. Hún geisar þá bara áfram með sömu hörmungum og hv. þingmaður er að rekja. Ef það er verðbólga hér á landi, stöðug, og verðbólguhorfur eru slæmar mun það að sjálfsögðu bitna á heimilunum, fyrst á þeim sem hafa minnst milli handanna. Að sjálfsögðu mun það brjótast út í kjörum húsnæðislána og í öllum vaxtakjörum á markaðnum. Hækkanir Seðlabankans eru til þess að slá á væntingar um það hversu lengi þetta tímabil mun vara. En þetta er grundvallarumræða um það hvort við eigum yfir höfuð að láta Seðlabankann hafa vaxtaákvörðunartækið.